Fókus

„Líffræðikennarinn var orðinn þreyttur á mér“

Jón Ívar Einarsson, prófessor við Harvard, um tilefnislausan ótta við einkavæðingu, kviðsjáraðgerðir og leiðina upp metorðastigann

Margrét Gústavsdóttir
Miðvikudaginn 1. nóvember 2017 19:00

Jón Ívar Einarsson tók við stöðu prófessors við læknadeild Harvard-háskóla í byrjun október á þessu ári. Hann segist hafa náð langtímamarkmiði með þessum merkilega áfanga, en virðulegri stöðu er vart hægt að hljóta í þessu fagi. Margrét Gústavsdóttir hitti Jón Ívar í hádegishléi á Hótel Miðgarði við Hlemm. Þar ræddu þau meðal annars einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu á Íslandi, læknisfræðina og leiðina sem lá úr lítilli blokk í Safamýri alla leið upp í hinn virta Harvard-háskóla.

Jón Ívar leit dagsins ljós á fæðingarheimilinu í Reykjavík þann 15. nóvember árið 1969. Móðir hans, Kristín Alda Kjartansdóttir, var aðeins fimmtán ára þegar drengurinn kom í heiminn svo að móðuramma hans og -afi tóku við uppeldinu, en slíkt var nokkuð algengt á þessum árum.

Afi hans, Jón Einarsson, vann í Álverinu í Straumsvík, en amma hans, Alda Júlíusdóttir, skúraði vinnustaði eftir lokun og tók drenginn gjarnan með. Þau voru íslenskt verkafólk af gamla skólanum sem þrátt fyrir ágæta greind og góðan vilja höfðu, reynslu sinnar vegna, takmarkaðan skilning á námsfýsi barnabarnsins.

„Afi var alinn upp á Smyrlabjörgum í Suðursveit. Þangað kom vikulega kennari sem kenndi honum að lesa, skrifa og einfalda stærðfræði en amma kláraði aldrei grunnskólann. Það má eiginlega segja að þau hafi aldrei haft fullan skilning á því sem ég var að gera. Einu sinni kom ég til dæmis heim með einkunn upp á 9,5 af 10. Afa fannst samt eitthvað vanta upp á. Spurði hvort ég hefði ekki örugglega svarað öllum spurningunum. Hélt sem sagt að þær hefðu verið tíu alls og ég hefði bara svarað níu og hálfri,“ segir Jón Ívar og brosir að minningunni.

„Það má segja að ég hafi alist upp sem einbirni hjá ömmu og afa en þau tóku saman um fertugt. Afi var barnlaus en amma hafði eignast fjögur börn og þar af var móðir mín yngst. Mamma eignaðist síðar þrjár dætur og við eigum mjög gott samband í dag, við mamma og systur mínar.“

Truflaði líffræðikennarann

Jón var ekki nema sex eða sjö ára þegar hann ákvað að gerast læknir. Hann segist ekki alveg skilja hvers vegna því það var enginn læknir í fjölskyldunni og engar fyrirmyndir í hans nánasta umhverfi sem hvöttu hann til þess að stefna á þessa braut.

„Líffræðikennarinn í skólanum var til dæmis orðinn mjög þreyttur á mér. Ég var alltaf fyrstur til að rétta upp hönd og vilja rökræða hlutina og hún var farin að biðja mig um að hætta. Ég man sérstaklega eftir því að hafa spurt hana hvort ekki væri hægt að sjúga burt fitu úr líkamanun en henni þótti það alveg fáránleg hugmynd,“ segir hann og hlær.
„Ég hef verið svona tíu ára þarna og hafði ekki hugmynd um hvort þessi tæki væru til,“ segir Jón sem gekk í Álftamýrarskóla sem barn, fór þaðan í Menntaskólann við Hamrahlíð og því næst í Háskóla Íslands þar sem hann lagði stund á almenna læknisfræði.

„Ég áttaði mig fljótlega á því að skurðlækningar ættu betur við mig en aðrar greinar í faginu. Mér finnst gefandi að sjá fljótlega árangur af því sem ég er að gera og á sama tíma er ég mikið fyrir það að einbeita mér bara að einu viðfangsefni í senn. Er kannski svolítill hellisbúi hvað það varðar,“ segir hann og hlær. „Þegar ég prófaði að starfa á kvensjúkdómadeildinni ákvað ég strax að sérhæfa mig á því sviði og einbeita mér þá sérstaklega að skurðlækningum.“

Valið flýtti fyrir leiðinni upp metorðastigann

Árið 1998 lá leiðin til borgarinnar Houston í Texas þar sem hann lagði stund á sérfræðinám við Baylor College of Medicine. Hann valdi að einbeita sér sérstaklega að kviðsjáraðgerðum, en svo kallast það þegar aðgerðir eru gerðar í gegnum lítil göt á kviðnum og myndavél notuð til að sjá inn. Skurðlæknirinn horfir þannig á skjá meðan á aðgerðinni stendur.

„Það má segja að ég hafi valið undirsérnámið á góðum tíma. Þessi aðferð var að ryðja sér til rúms, þróunin var ör og mörg tækifæri í boði. Á vissan hátt held ég að þetta val hafi hjálpað mér að rísa upp metorðastigann fyrr en ef ég hefði farið í sérgrein sem hefur verið lengi til staðar. Kviðsjáraðgerðir hafa gefið mjög góðan árangur enda mun minni hætta á hvers konar fylgikvillum með þessari aðferð. Þegar ég byrjaði í sérnáminu var þessi aðferð notuð við einfaldari aðgerðir en núna eru nánast allar aðgerðir á þessu svæði gerðar með kviðsjá, til dæmis þegar verið er að fjarlægja æxli, lagfæra legsig, legslímhimnuflakk og fleira,“ segir Jón sem hefur um nokkurra ára skeið setið í stjórn AAGL, eða American Association of Gynecologic Laparoscopy. Svo kallast samtök kvensjúkdómalækna sem sérhæfa sig í skurðaðgerðum með kviðsjá. Nú gegnir hann forsetaembætti þessara samtaka, sem leggja meðal annars áherslu á að kvensjúkdómalæknar hafi nægilega þjálfun og þekkingu til að framkvæma kviðsjáraðgerðir.

Mynd: Brynja

Konur þurfa að vera vissar um að læknarnir valdi aðgerðunum

Jón segir flesta kvensjúkdómalækna fá litla þjálfun í skurðaðgerðum enda sinni þeir mjög fjölbreyttum störfum innan fagsins sem tengjast ekki skurðaðgerðum. Þetta hefur leitt það af sér að margir læknar eru í lítilli þjálfun þegar kemur að skurðaðgerðum. Margir treysti sér ekki í flóknar aðgerðir og aðrir framkvæmi þær án viðunandi þekkingar og reynslu.

„Fólk heldur stundum að allir læknar séu eins, hafi sömu þekkingu og þjálfun – en svo er ekki.
AAGL-samtökin hafa meðal annars þróað sérstakt bóklegt og verklegt próf sem ætlað er að sía í burtu þá lækna sem ekki valda þessum aðgerðum. Konur þurfa jú að geta verið vissar um að læknirinn sem meðhöndlar þær hafi nægilega þjálfun og þekkingu til að framkvæma flóknar aðgerðir á þeim. Þess vegna er mikilvægt að það séu til samtök sem setja upp staðla um að læknar uppfylli nauðsynlegar kröfur í aðgerðum. Nú er þessu þannig háttað að nýútskrifaðir læknar geta, strax að loknu sérnámi, farið beint í að skera fólk upp án þess að neinn sé að fylgjast sérstaklega með aðferðunum,“ segir hann ákveðið og ljóst er að málefnið brennur á honum.
„Ef fólk stenst ekki þetta próf þá viljum við bjóða upp á endurmenntun eða önnur úrræði.“

Lærði snemma að stóla bara á sjálfan sig

Undanfarin ellefu ár hefur Jón Ívar búið í Boston í Bandaríkjunum. Þar starfar hann við hinn virta Brigham and Women‘s Hospital og stýrir sérstakri deild þar sem einungis eru framkvæmdar áðurnefndar kviðsjáraðgerðir. Þegar deildin var sett á laggirnar var Jón valinn úr hópi tuttugu umsækjenda. Hann segir það hafa komið sér á óvart að hafa fengið starfið og það hafi svo framkallað eins konar jákvæða hringrás sem hefur gefið honum ótal tækifæri. Orsökina megi þó ef til vill rekja til æskuáranna sem voru að mörgu leyti góð en ekki alveg áfallalaus.

„Ég hef alla tíð viljað verða bestur, eða mjög góður, í því sem ég er að fást við hverju sinni. Hvað kviðsjáraðgerðirnar varðar þá hef ég frá upphafi lagt mig allan fram um að verða framúrskarandi góður í að framkvæma þær. Fólk áttar sig á hversu mikið ég hef helgað mig starfinu og úr verður jákvætt flæði. Ég held kannski fyrirlestur einhvers staðar og þar er mér boðið að halda tvo í viðbót og svo koll af kolli,“ segir Jón hugsi og bætir við að mögulega hafi þessi þörf hans fyrir fullkomnun sprottið upp úr erfiðum aðstæðum á æskuheimilinu sem gengu ekki áfallalaust fyrir sig þrátt fyrir að amma hans og afi hafi yfirleitt reynst honum mjög vel.

„Amma missti frá sér eitt barn, dreng sem lést af slysförum þegar hann var ellefu ára. Á þessum árum var ekkert til sem hét áfallahjálp og hún fékk aldrei neina aðstoð við að ná andlegu þreki eftir þennan erfiða missi. Þegar ég er svona tíu, ellefu ára, þá hallaði hún sér að flöskunni og varð mjög erfið og reið í skapi. Hún átti það líka til að verða árásargjörn, upp að því marki að við afi þurftum stundum að loka okkur inni svo hún myndi ekki ráðast á okkur. Í eitt af þessum skiptum tók ég upp símann og hringdi í frænda minn, til að athuga hvort hann gæti ekki komið og hjálpað okkur. Hann sagði bara að það væri ekkert hægt að gera í málinu, þetta myndi líða hjá. Á þessu andartaki áttaði ég mig á því að ég myndi alltaf þurfa að reiða mig á sjálfan mig í lífinu. Það myndi enginn redda þessu fyrir mig og ef ég ætlaði mér eitthvað þá þyrfti ég að komast þangað einn og óstuddur.“

Prófessor við Harvard

Þann 6. október síðastliðinn var Jóni Ívari tilkynnt að hann hefði hlotið stöðu prófessors við læknadeild Harvard-háskóla. Hann telur það hafa hjálpað sér mjög að þekkja bæði styrk- og veikleika sína til að ná þessum áfanga en jafnframt þakkar hann árangurinn góðu teymi við Brigham-spítalann.

„Sjálfur er ég til að mynda alltaf í 30.000 fetum og á gott með að sjá heildarmyndina, hvert hlutirnir eru að stefna og hvað fólki gæti þótt áhugavert að sjá eða lesa um. Svo er ég með fólk í teyminu mínu sem er betra í smáa letrinu. Til að vera skipaður prófessor við Harvard-háskóla þarf maður helst að vera heimsþekktur á sínu sviði. Jafnframt er gerð krafa um að maður hafi birt margar greinar í viðurkenndum fagritum og flestir hafa náð vissum aldri þegar þessari stöðu er úthlutað. Aldri sem ég hef enn ekki náð þó ég sé nú ekki mjög ungur. Mig grunar þó að ég hafi náð ákveðnu forskoti með því að sérhæfa mig snemma í sérgrein minni og svo hefur vinnuframlagið eflaust haft sín áhrif,“ segir Jón, sem dvelur þrjá fjórðu hluta mánaðarins í Boston. Þess á milli sinnir hann föðurhlutverkinu af sama metnaði, en hér á hann tvo syni, þá Ívar Karl, 11 ára og Róbert Kára, 9 ára.

Mynd: Brynja

Heilbrigðiskerfinu á Íslandi hefur alltaf verið sniðinn þröngur stakkur

„Mér finnst einhvern veginn eins og mér beri skylda til að nýta tímann minn vel. Bæði meðan ég er hér og líka þegar ég er úti. Þegar ég er hér á Íslandi þá helga ég mig alveg sonum mínum en þegar ég er úti snýst nánast allur sólarhringurinn um starfið,“ segir hann og bætir við að í framtíðinni stefni hann á að verja meiri tíma hér á landi. Vinnuumhverfið sé þó ekki jafn spennandi áskorun og það sem býðst í Bandaríkjunum og hér sé heilbrigðiskerfið honum einnig svolítill þrándur í götu.

„Ég er alltaf að velta því fyrir mér hvernig ég gæti fengið tækifæri til að vera meira hér heima en þetta er því miður flókið. Á Íslandi býðst læknum einungis staða hjá ríkisspítalanum en slíkum stofnunum er mjög erfitt að hafa áhrif á vinnuumhverfi sitt, sem hentar mér illa. Þegar mér var boðin staða við Landspítalann ákvað ég að afþakka. Mér þótti það virkilega erfitt því mig langar að dvelja meira með fjölskyldu minni en því miður sá ég fram á að ég myndi líklegast ekki hafa sömu ánægju af starfinu, með takmörkuð eða engin fjárráð og fáa valkosti við stefnumótun og áherslur innan deildarinnar.

Svo er það eins með þetta og annað handverk, því meira sem maður gerir, því betri verður maður í því. Á Brigham-spítalanum framkvæmum við svona 1.200 legnám á hverju ári í samanburði við 300 á Íslandi. Það má segja að við höfum úr svo miklu meira að spila þar, peningalega en einnig hvað varðar rannsóknir, framþróun og fleira. Í stuttu máli eru færri tækifæri og áskoranir hérlendis sem skrifast meðal annars á fjárskort í kerfinu og fleira,“ segir hann og bætir við að heilbrigðiskerfinu hafi alltaf verið sniðinn þröngur stakkur og þrátt fyrir fögur fyrirheit frambjóðenda verði oftast lítið úr loforðunum. Þannig hafi þetta alltaf verið, ekki bara síðustu ár heldur áratugi.

Peningarnir þurfa að fylgja sjúklingunum, ekki öfugt

„Í fyrsta lagi held ég að við séum öll sammála um að landsmenn eigi að hafa jafnan aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Hins vegar eru of margar skekkjur í kerfinu sem maður furðar sig á. Til dæmis á enginn að þurfa að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð. Ef biðin reynist lengri eiga sjúklingar rétt á styrk frá Tryggingastofnun, sem greiðir fyrir ferð og uppihald í aðgerð utan landsteinanna. Um þetta eru ákvæði í Evrópusáttmála sem Ísland fellur undir. Kunningi minn starfar bæði við Klíníkina í Ármúla og við spítala í Svíþjóð. Til Svíþjóðar fær hann íslenska sjúklinga, sem vegna fjárskorts í heilbrigðiskerfinu þurfa að bíða lengur en þrjá mánuði hér eftir aðgerð. Þeir mega sem sagt ekki þiggja þjónustu hans við Klíníkina í Ármúla en á sama tíma fá þeir styrk úr ríkissjóði til að gangast undir nákvæmlega sömu aðgerð á einkasjúkrahúsinu Capio Movement í Halmstad í Svíþjóð. Auðvitað er ekki heil brú í þessu og þetta sýnir jafnframt svart á hvítu að það er einhver undarleg pólitík í gangi hérna sem opinberar algjörlega tilefnislausan ótta fólks við einkaþjónustu í heilbrigðisgeiranum,“ segir hann og bætir við að ekkert þurfi að koma í veg fyrir að bæði kerfin geti starfað samhliða með góðum árangri. Á sama tíma þurfi ríkisspítalinn þó að vera mjög öflugur og að nú sem áður sé nauðsynlegt að veita til hans enn meira fé. Í stuttu máli þurfi peningarnir að fylgja sjúklingunum en ekki öfugt.

„Spítalinn fær takmarkað fjármagn og með því þarf að sinna öllum sem þurfa aðstoð. Þetta gengur auðvitað ekki upp, sérstaklega með sívaxandi fólksfjölda á landinu. Því fleiri sem sjúklingarnir eru því erfiðari verður reksturinn af því peningarnir fylgja ekki sjúklingunum. Hér á landi vill spítalinn helst ekki fleiri sjúklinga, en í flestum öðrum löndum sem við berum okkur saman við eru allir sjúklingar velkomnir á spítalana. Ekki bara vegna þess að læknar vilja hjálpa fólki heldur er það gagnlegt fyrir fræðin, rannsóknir og þjálfun nemenda svo fátt eitt sé nefnt. Það tala allir um að efla heilbrigðiskerfið, hvað sem það nú þýðir, en svo þegar kemur að útfærsluatriðunum þá gerist lítið. Þetta hefur alla tíð verið einn stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs en það er alltaf verið að spara í honum. Ég hef hins vegar enga trú á því að þetta sé eitthvert pólitískt samsæri vegna þess að þetta hefur alltaf verið svona, burtséð frá því hverjir eru við völd hverju sinni.“

Nýsköpunarfyrirtækið Freyja Healthcare

Mynd: Brynja

Í tæpan áratug hefur Jón unnið að þróun lækningatækja með öflugu teymi samstarfsaðila. Hann bindur vonir við að þetta gæluverkefni hans, eins og hann kallar það, muni koma á markað á næsta ári en að baki því liggur mikil vinna og undirbúningur.

„Flestir sem starfa í einhvers konar handverki, hvort sem það er smíði, skurðlækningar eða annað, velta því fyrir sér hvernig hægt sé að gera vinnutækin betri. Þetta á jafnt við um smiði sem skurðlækna. Fyrir svona átta árum fór ég að velta því fyrir mér hvernig minnka mætti hættu á aukaverkunum og flýta fyrir bata með betri tækjum. Ég byrjaði að skissa upp hugmyndir, gúgglaði svo sérhæfðar verkfræðistofur og skrapaði saman peningum til að hefjast handa. Á þessari leið hef ég lært alveg heilmikið enda er þetta blanda af læknisfræði, verkfræði og viðskiptum, og þó ég sé alvanur læknisfræðinni þá veit ég eðlilega minna um hið síðarnefnda. Sumt hefur gengið vel og af öðru höfum við lært. Fyrir rúmu ári stofnaði ég fyrirtækið Freyja Healthcare í kringum þessa nýsköpun. Við erum á mjög góðri siglingu, enda hef ég frábært teymi mér til halds og trausts. Framkvæmdastjóra í fullu starfi, þrjár verkfræðistofur, lögfræðinga og fleiri sérfræðinga, sem hafa allir komið að svona framleiðslu áður. Þá má í sjálfu sér segja að hugmyndin sé bara eitt prósent en restin snýst um framkvæmdina,“ útskýrir hann með tilheyrandi handahreyfingum.

Gæti jafnvel flutt aftur til Íslands

Tækin sem um ræðir eru þrjú eins og stendur og Jón hefur þegar fengið af þeim prótótýpur svokallaðar. Einu tæki er ætlað að minnka umfang líffærisins þegar legið er fjarlægt með kviðsjáraðgerð. Annað er stíf töng sem einfaldar erfiðasta hlutann í legnámsaðgerð (sem er að skilja að leggöng og leg), en þriðja tækið er öruggari leið til að stinga kviðsjánni, sem er fest framan á örlitla nál, inn í kviðinn.

„Þegar maður byrjar svona aðgerð þá er stungan oft blind og því getur fylgt viss áhætta. Til að draga úr henni höfum við þróað örlítið ljós framan á myndavélina til að sjá nákvæmlega hvert nálin miðar. Það eru gerðar um fimmtán milljón kviðsjáraðgerðir á ári, sem er ekkert smáræði, og ég er sannfærður um að þetta eigi eftir að koma sér mjög vel. Við stefnum á að byrja að gera aðgerðir með þessum tækjum í byrjun næsta árs eða þarnæsta. Það er undanfari þess að FDA, eða bandaríska matvælaeftirlitið, samþykki tækin en því næst getum við komið þeim í söluferli, hvort sem við gerum það sjálfir eða göngum til liðs við annað fyrirtæki. Þetta er gæluverkefni mitt eins og er en það gæti breyst ef þetta verður að alvöru, sem eru góðar líkur á. Þá gæti ég jafnvel flutt aftur til Íslands,“ segir prófessorinn snjalli að lokum.

Margrét Gústavsdóttir
....er félagi nr. 241 hjá Blaðamannafélagi Íslands.
Hún hefur m.a. starfað við sjónvarp og útvarp og verið vinsæll bloggari í gegnum árin. Margrét nam sálfræði og forritun Kaupmannahöfn á þeim árum þegar tæknisinnaðir voru með símboða í beltinu og farsíminn vó sirka 450 grömm en lífsspeki hennar rammast í setningunni:

„Mart smart gerir eitt lekkert.“

margret@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Lauga (30) og Árni (28) á Torfastöðum: „Bændur eru bændum verstir“

Lauga (30) og Árni (28) á Torfastöðum: „Bændur eru bændum verstir“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslenska karlalandsliðið – MYNDIR: Hrikalega flottir í sérsaumuðum jakkafötum en mættu vinna betur með bindishnútana

Íslenska karlalandsliðið – MYNDIR: Hrikalega flottir í sérsaumuðum jakkafötum en mættu vinna betur með bindishnútana
Fókus
Fyrir 4 dögum

TÆKNI: Svona horfir þú á íslenska landsliðið á RÚV erlendis

TÆKNI: Svona horfir þú á íslenska landsliðið á RÚV erlendis
Fókus
Fyrir 4 dögum

Meghan Markle (36) og Elísabet drottning (92): Óaðfinnalega lekkerar vinkonur í opinberri heimsókn

Meghan Markle (36) og Elísabet drottning (92): Óaðfinnalega lekkerar vinkonur í opinberri heimsókn
Fókus
Fyrir 6 dögum

TÍMAVÉLIN – Skáldkonan Ólöf frá Hlöðum (1857-1933) ólst upp við fátækt: „Oft grét ég þegjandi af leiðindum“

TÍMAVÉLIN – Skáldkonan Ólöf frá Hlöðum (1857-1933) ólst upp við fátækt: „Oft grét ég þegjandi af leiðindum“
Fókus
Fyrir einni viku

Vignir Ljósálfur: „Þegar maður er svona mikið veikur þá verður manni alveg sama um tilveruna“

Vignir Ljósálfur: „Þegar maður er svona mikið veikur þá verður manni alveg sama um tilveruna“