fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Hera mætir Jason Momoa í nýrri sjónvarpsþáttaröð: „Raunveruleikinn getur verið fáránlegur“

Tómas Valgeirsson
Mánudaginn 17. desember 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikkonan Hera Hilmarsdóttir er fyrsti íslenski leikarinn til að landa burðarhlutverki í Hollywood-stórmynd, hlutverki sem hún bjóst aldrei nokkurn tímann við að hreppa. Hún gaf sér tíma í öllu annríkinu til þess að fara með blaðamanni DV yfir hið gífurlega umfang ævintýramyndarinnar Mortal Engines og leiðina að þessu risastóra hlutverki. Hera leiðir okkur í gegnum dæmigerðan vinnudag á stóru kvikmyndasetti og álagið sem fylgir hlutverki af þessu tagi.

Aðspurð um áhuga sinn á leiklist segir hún: „Mér hefur alltaf fundist gaman að setja mig í spor annarra og blása lífi í sögur sem heilla mig, Þetta hefur í raun ekki breyst mikið frá mínum yngri árum. Mig langaði alltaf að verða leikkona. Nú er ég svo heppin að geta kallað þetta vinnuna mína í stað þess að það sé eitthvað sem ég fæ aðeins að gera í frítíma mínum, sem er frábært.“

Í myndinni Mortal Engines fer Hera með hlutverk hinnar þrautseigu og hefnigjörnu Hester Shaw, sem freistar þess að koma fram hefndum gegn morðingja móður sinnar sem einnig afmyndaði andlit hennar. Myndin kemur úr smiðju kvikmyndagerðarmannsins og ofurframleiðandans Peters Jackson og var myndin frumsýnd síðustu helgi á Íslandi og um allan heim.

Þetta er brot úr lengra helgarviðtali DV, sem birt verður í heild sinni á næstu dögum.

Með heppnina að vopni

Þegar kom að ráðningu Heru segir hún tilfinninguna um að fá hlutverkið hafa verið afar blendna. „Þetta gerðist allt afar hratt. Ég var að leika í leiksýningunni Andaðu í Iðnó með Þorvaldi Davíð á þeim tíma sem ég fékk fréttirnar. Öll mín orka var algjörlega þar enda tók framleiðsluhliðin á sýningunni mikla orku. Skyndilega fékk ég boð um að senda prufumyndband fyrir myndina. Ég sendi inn myndband en ímyndaði mér ekki að ég gæti landað þessu hlutverki. Á endanum held ég að það hafi unnið með mér.“

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ferill Heru hófst. Hún hefur verið búsett í London en einnig tekið að sér hlutverk á Íslandi inni á milli. Leikkonan vakti mikla athygli í sjónvarpsþáttaröðinni Da Vinci’s Demons sem fjallar um Leonardo Da Vinci á yngri árum. Hera lék eitt af aðalhlutverkunum í þáttunum við góðar undirtektir og óhætt að fullyrða að þeir hafi verið góður stökkpallur fyrir stærri verkefni.

Undanfarið hefur leikkonan jafnframt tekið að sér hlutverk í tveimur af stærri íslenskum kvikmyndum síðari ára, Vonarstræti frá Baldvini Z og Eiði Baltasars Kormáks. Þá upplifði hún einn hápunkt ferils síns, hingað til, þegar hún lék í aðalhlutverkið í  kvikmyndinni An Ordinary Man sem kom út í fyrra og lék þar á móti hinum virta leikara Sir Ben Kingsley. Á sama ári léku þau einnig saman í stríðsdramanu The Ottoman Lieutenant.

Hera og Sir Ben Kingsley í kvikmyndinni An Ordinary Man (2017)

Næsta verkefni hjá Heru er sjónvarpsþáttaröðin See sem Apple framleiðir. Aðspurð út í verkefnið er Hera þögul sem gröfin en segist vera mjög spennt fyrir áskoruninni. Þættirnir gerast í framtíðinni og mun Hera fara með hlutverk konu sem heitir Maghra og hefur verið lýst sem ákveðinni móður sem eigi það í sér að fremja hryllileg illvirki. Leikarar á borð við Diane Lane, Amanda Peet, Andrew Rannells, Jason Momoa og Aaron Eckhart fara einnig með hlutverk í þáttunum. Flestum þessara leikara bregður þó fyrir í útvöldum þáttum á meðan Hera gegnir lykilhlutverki í allri seríunni, en þættirnir verða tíu talsins.

Hera lofar því að velgengnin á erlendum vettvangi verði ekki til þess að hún hætti að taka við hlutverkum hérlendis. Hún segir það skipta sig gríðarlegu máli að halda í heimaræturnar og það standi ekki til að það breytist.

Tilfinningin í maganum

Hera er ekki mikil áhættuleikkona en hún var hörð á því að líta ekki út eins og þrautþjálfuð hetja sem kynni að berjast eða drepa, heldur venjuleg ung kona sem væri heltekin af reiðinni, ofar öllu öðru. „Það var mikilvægt fyrir mig að hún liti þannig út líkamlega, að hún væri manneskja sem gerði mistök þegar kæmi að þessum kúnstum og þess háttar.“

Hera bendir á að í hvaða fagi sem er sé mikilvægt að leyfa sér að vera hræddur. Hjá henni gildi þetta bæði um leikinn og lífið.

„Það er sama hversu absúrd heimurinn er, því raunveruleikinn getur verið fáránlegur, en ef þú finnur eitthvað sem tengir þig við jörðina og þig, þá geturðu gert í rauninni hvað sem er. Þú getur farið hvert sem er, bæði langt og stutt,“ segir hún og bætir við að þetta komi líka eðlishvötinni við. Hera segir gott viðmið vera tilfinninguna sem hún finnur fyrir í maganum, sem hún telur halda sér á réttri braut.

„Þetta þýðir líka fyrir mér, að maður leyfir sér að stökkva fram af bjarginu af því að maður veit að maður er með reipi fast við jörðina. Eða jafnvel þótt þú sért ekki með eitthvað áþreifanlegt eins og reipið þá yfirleitt grípur þig eitthvað, svo lengi sem þú ert tengdur við þessa eðlishvöt. Stundum er ekki neitt til að grípa þig og það er yfirleitt allt í góðu. Í versta falli meiðir þú þig bara smávegis. Þér batnar og svo heldurðu áfram sterkari. Við þurfum að leyfa okkur að taka séns á því sem hræðir okkur. Þannig hefur þetta virkað í mínu tilfelli.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun