Eftir rúma viku verður kosið til formanns KSÍ en kosningin fer fram annan laugardag. Þrír eru í framboði og sækjast eftir starfinu.
Um er að ræða Guðna Bergsson fyrrum formann, Þorvald Örlygsson rekstrarstjóra Stjörnunnar og Vigni Má Þormóðsson fyrrum stjórnarmann í KSÍ og fyrrum formann KA.
Rætt var um baráttuna í Þungavigtinni í dag. „Guðni er alltaf með gott bakland, hann var með Sigurjón Jónsson og vann góðan sigur í Eyjum og nú er annar maður,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason.
Kristján Óli Sigurðsson tók þá til máls. „Hann er með Jóhann Már Helgason fyrrum framkvæmdarstjóra Vals, hann er að vinna bak við tjöldin bæði í podkast heimum og annars staðar. Dásamar Guðna og talar niður aðra frambjóðendur.“
„Þegar talið verður upp úr kössunum þá held ég að það skipti ekki máli hvað Jóhann Már stuðningsmaður Chelsea er að segja. Ég gæti trúað því að þetta færi í aðra umferð.“
Kristján segir að verið sé að skjóta fast á Vigni Má sem kom síðastur fram. „Það er búið að vera hnýta í Vigni Má en hann hefur mikið fram að færa, er mikill rekstrarmaður. Guðni hefur ekki staðið í slíku og hrökklaðist frá störfum síðast, hann var ábyrgur fyrir því að Íslandsmótin og bikarkeppnin voru blásin af á tímum COVID. Ég vona að liðin sem voru í baráttu þar muni það þegar þau fara að X-a við.“
„Toddi er silent í þessu, ég held að þetta verði mjög forvitnilegt.“
Mikael Nikulásson sem þjálfaði Njarðvík árið 2020 er enn ósáttur við að Guðni og stjórn KSÍ á þeim tíma hafi blásið öll mót af. „Ég er ekki búinn að gleyma þessu sem gerðist í COVID, ég var í þessari baráttu en það voru lið sem lentu verr í þessu en ég. Ég taldi mig eiga góðan möguleika á að fara upp með Njarðvík 2020 þegar Guðni blés mótið af, ég hef ekki atkvæðisrétt þarna. Guðni er góður maður. Toddi er toppmaður. Þeir eru ólíkir, þeir tveir. Vignir er klárlega með mestu reynsluna af stjórnunarstörfum, lengi í stjórn KSÍ, formaður KA. Ég held að Þorvaldur sé mun harðari en hinir tveir, Guðni sýndi enga hörku þegar hann var áður. Arnar Þór Viðarsson fékk öll störfin og mér fannst Guðni þurfa að gera betur, vonandi lærði hann af því.“