Takehiro Tomiyasu, leikmaður Arsenal, hefur viðurkennt það að honum líði betur í dag eftir æfingaleiki með japanska landsliðinu.
Tomiyasu hefur ekki náð að festa sig í sessi í vörn Arsenal en hann stóð sig mjög vel í leikjum Japans í landsleikjahlénu er liðið vann Þýskaland 4-1 og Tyrkland 4-2.
Varnarmaðurinn segir að tíminn hjá Arsenal hafi alls ekki verið fullkominn hingað til en hann vinnur í því að fá sjálfstraustið til baka.
,,Ég þurfti að sannfæra sjálfan mig eða meira gefa sjálfum mér sjálfstraust. Ég þurfti að finna fyrir sjálfstraustinu á ný,“ sagði Tomiyasu.
,,Hjá Arsenal er staðan öðruvísi, ef þú spyrð mig hvort ég geti gert það sama fyrir Arsenal þá er það önnur saga. Ég þarf að gera mitt til að tryggja sæti í liðinu.“
,,Ég vil meina að ég hafi öðlast sjálfstraust í þessum leikjum en ég get ekki sagt að ég sé hundrað prósent ég sjálfur. Mér líður eins og ég sé að gera vel hjá Arsenal. Auðvitað hafa komið tímar þar sem ég missi sjálfstraustið og ég hef þurft að íhuga marga hluti.“