
Verjandi Nick Reiners hefur sagt sig frá málinu og það rétt fyrir þingfestingu, en Reiner er ákærður fyrir að hafa banað foreldrum sínum, leikstjóranum Rob Reiner og eiginkonu hans Michele Singer Reiner. Nick fær þess í stað verjanda sem hefur verið skipaður af dómstólum. People greinir frá þessu.
Nick mætti í dómsal í dag og vakti það eftirtekt að hann hafði krúnurakað sig. Hann tók ekki afstöðu til sakagifta. Verjandinn Alan Jackson sem gætt hefur hagsmuna Nick á fyrri stigum málsins óskaði eftir að ræða við dómara undir fjögur augu. Jackson er stjörnuverjandi en hann sagði við dómara í dag að hann hefði ekki um annað að velja en að segja sig frá þessu máli.
Jackson hefur ekki skýrt það nánar hvers vegna hann steig til hliðar en fyrrum saksóknarinn Neama Rahmani segir í samtali við LA Times að tvennt komi til greina. Annaðhvort hafi Nick ekki efni á að borga Jackson eða að ósætti hafi komið upp. Rahmani bendir á að þjónusta Jacksons sé ekki ódýr og ýmislegt bendi til þess að Nick sé blankur. Til dæmis hafi hann verið búsettur í gestahúsi foreldra sinna þegar morðin áttu sér stað.
Annar stjörnuverjandi, Michael Goldstein, segir að það sé erfitt að koma með getgátur en líklegast sé að um ósætti sé að ræða. Goldstein tekur þó fram að þeir verjendur sem starfa fyrir hið opinbera séu vel að því komnir að taka málið að sér.
E! Online greinir frá því að nokkrum klukkustundum fyrir morðin hafi Michele Reiner sent tölvupóst til Nanon Williams. Williams er fangi sem hefur verið dæmdur fyrir morð. Hann hefur áfrýjað málinu og Michelle hafði vingast við hann eftir að hún sá leikritið Lyrics From Lockdown sem byggir á bréfum sem Williams skrifaði í fangelsinu.
Talið er að þetta séu seinustu skilaboðin sem Michele sendi frá sér áður en hún var myrt en þar sagðist hún vongóð um að Williams gæti sjálfur fengið að sjá leikritið einhvern daginn. „Við getum ekki beðið eftir að horfa á það með þér. Vonandi hefur þú það sem allra best. Elska þig – Michele.“
Williams hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og segir nú í samtali við fjölmiðla að Michele og eiginmaður hennar hafi reynst honum ótrúlega vel seinasta áratuginn.