Atvikið átti sér stað í San Jose í Kaliforníu um hábjartan dag síðastliðinn föstudag.
Bifreið var bakkað á talsverðum hraða inn í verslunina og á eftirlitsmyndavélum sést þegar hópur manna, líklega um 15-20 talsins, koma inn í verslunina vopnaðir bareflum. Þeir sjást meðal annars brjóta glerskápa og hafa á brott með sér talsvert magn af skartgripum.
Rán af þessu tagi ganga undir nafninu „smash-and-grab“ og hafa þau færst í vöxt vestan hafs á undanförnum misserum.
Þjófarnir, oft mjög margir saman, birtast þá skyndilega og grípa með sér verðmæti áður en þeir láta sig hverfa á örfáum sekúndum. Oft á tíðum er erfitt að verjast ránum sem þessum.
Í frétt New York Post kemur fram að eigandi verslunarinnar, 88 ára karlmaður, hafi slasast þegar honum var hrint í jörðina og ofan á glerbrot. Hann var lagður inn á sjúkrahús en útskrifaður á sunnudag.
Mikið eignatjón varð í versluninni og er það talið nema allt að 100 þúsund dollurum, rúmum 12 milljónum króna. Það eru ótalin þau verðmæti sem ræningjarnir höfðu á brott með sér.
Borgarstjóri San Jose, Matt Mahan, var hoppandi illur vegna málsins.
„Þetta er skelfilegt að sjá. Það sýður á mér að horfa upp á þennan eldri borgara verða fyrir árás. Þessir einstaklingar þurfa að mæta mjög hörðum afleiðingum gjörða sinna. Ég hef verið í sambandi við lögreglustjórann okkar og mun fylgjast náið með rannsókninni,“ sagði hann.
Enn sem komið er hefur enginn verið handtekinn vegna málsins.
My friend’s 88 year old uncle’s San Jose Jewelry Store was robbed on Fri 9/5 at 2pm. They ran a truck through the store and then pushed him down. He was injured by broken glass and then had a stroke. @MattMahanSJ you’ve done a lot for SJ but still more criminals to be locked up. pic.twitter.com/5eSRaCVKo2
— Moore On The Street (@Chris_Moore4Sup) September 6, 2025