Karlmaður í Kaliforníu hefur verið ákærður fyrir morð eftir að eiginkona hans fannst sundurlimuð á heimili þeirra. Vinir konunnar segja að hún hafi flutt til Bandaríkjanna frá Skotlandi til láta drauminn um að verða lögmaður í stórborg rætast. Þess í stað hafnaði hún í ofbeldissambandi sem hafi nú endað með ósköpum.
Hin látna hét June Bunyan og var hún 37 ára gömul þegar hún lést. Eiginmaður hennar, Jonathan Rentira, er 25 ára og situr nú í gæsluvarðhaldi.
Málið má rekja til þess að Rentira reyndi að svipta sig lífi á hótelherbergi þann 11. september. Viðbragðsaðilar fundu í herberginu handskrifað bréf þar sem Rentira sagðist hafa myrt eiginkonu sína. Bréfið varð til þess að lögregla gerði húsleit á heimili hjónanna og fann þar líkamsleifar June. Hún hafði legið þar látin frá 4. september, að sögn ákæruvaldsins. Vinir June segja að hún hafi verið með háleit markmið. Hún fór í laganám til að gerast verjandi þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Lífið tók þó aðra stefnu þegar hún kynntist Rentira á samfélagsmiðlum, en samband þeirra varð fljótt ofbeldisfullt.
„Hann kom ekki vel fram við hana. Það var fjárhagslegt ofbeldi í sambandinu. Það var klárlega tilfinningarlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi í þessu sambandi en ef það var líkamlegt þá sagði hún mér aldrei frá því,“ sagði vinkona hennar í samtali við fjölmiðla. June og Rentira eignuðust nýlega stúlkubarn en vinkonan segir að Rentira hafi í kjölfarið stöðugt verið að hnýta í June með þyngd hennar.
„Stór hluti af andlega ofbeldinu voru hlutirnir sem hann sagði um líkama hennar. Hún var að reyna að fara frá honum og á slíkum tíma eru konur í ofbeldissamböndum í mestri hættu. Og það er einmitt þá sem hann myrti hana.“
Vinkonan segist finna fyrir mikilli sektarkennd að hafa ekki gert meira til að hjálpa June. Þess í stað horfði hún á lögreglu bera vinkonu sína út af heimili sínu í mörgum líkpokum. Fjölskylda June hefur hafið söfnun á GoFundMe til að koma líkamsleifum hennar til Skotlands svo hún fái að hvíla með ástvinum sínum.