Elizabeth Tsurkov, sem er bæði með ísraelskt og rússneskt ríkisfang, var numin á brott árið 2023 af Kata’ib Hezbollah, vopnaðri sveit sem nýtur stuðnings Írans og hefur verið skilgreind af Bandaríkjunum sem hryðjuverkasamtök.
CBS News segir að Elizabeth sé nú í öruggum höndum í bandaríska sendiráðinu í Írak. Herma heimildir miðilsins að samningaviðræður, en ekki hernaðaraðgerð, hafi tryggt frelsi hennar. Meðal skilmála hafi verið brottflutningur bandarískra hermanna frá Írak, auk tryggingar um að hvorki Bandaríkin né Ísrael myndu ráðast á Írak.
Christopher L. Eisgruber, forseti Princeton-háskóla, fagnaði tíðindunum mjög og segir að öllum sé létt nú þegar Elizabeth er komin í öruggt skjól. Hún var stödd í Írak til að vinna að dokorsverkefni sínu þegar henni var rænt.
Tsurkov fæddist í St. Pétursborg í Rússlandi árið 1986 en var á barnsaldri þegar fjölskylda hennar fluttist til Ísraels. Hún hefur meðal annars starfað við mannréttindamál og málefni Miðausturlanda, sem og skrifað fyrir fjölmiðla eins og The New York Times, Haaretz, The Forward og fleiri miðla.