Hin 24 ára gamla Corbie Jean Walpole svarar nú til saka í Albury í Ástralíu eftir að hann hellti bensíni yfir vin sinn til margra ára og kveikti í honum. Walpole hefur játað sök en útskýrði í dómsal að hún hafi misst stjórn á sér eftir að vinur hennar kom með óviðeigandi ummæli.
Þau voru úti að skemmta sér í janúar á síðasta ári og komin vel í glas. Þá fór vinur hennar, Jake Loader, að vera með drykkjudólg. Hann reyndi að fá Walpole til að glíma við sig og reyndi að vekja sofandi unnusta hennar, svo dæmi séu nefnd.
Botninn tók svo úr þegar Loader sagði vinkonu sinni að „halda sig við eldhúsið að baka skonsur“ frekar en að vera úti að djamma með strákunum.
Eftir þetta fór Walpole inn í bílskúr og sneri aftur með fimm lítra könnu af bensíni sem hún hellti yfir vin sinn. Svo fór hún að veifa kveikjaranum sínum með ögrandi hætti.
Vinur hennar trúði því ekki að hún myndi meiða hann svo hann ögraði henni og sagði: „Koma svo, gerðu það“, en þá einmitt gerði hún það.
Loader hlaut við þetta bruna á 55% líkamans og þurfti að halda honum sofandi í átta daga. Eftir það dvaldi hann alls í 74 daga á brunadeild sjúkrahússins í Melbourne þar sem hann þurfti að fara í 10 aðgerðir.
Walpole segir í dag að hún sjái eftir þessu öllu saman. Hún hafi ekki verið á góðum stað í lífinu þegar þetta gerðist og var farin að misnota áfengi og fíkniefni.
„Ég myndi gera allt til að geta spólað til baka,“ sagði Walpole á meðan vinur hennar getur ekki lengur farið út í sólina með bera húð og getur ekki svitnað þar sem svitakirtlar hans brunnu af.