

Systkinum í Ohio í Bandaríkjunum er hampað sem hetjum fyrir að bregðast hárrétt við og bjarga lífi skólabílstjóra síns, sem lenti í læknisfræðilegu neyðarástandi á leið í skólann,
Charlie, 14 ára, og Catrina, átta ára, brugðust við þegar bílstjórinn lenti í öndunarerfiðleikum, og kölluðu systkinin eftir hjálp í gegnum talstöð rútunnar. Upptaka náðist af atvikinu sem varð 19. desember síðastliðinn. Í myndbandinu má sjá Catrinu hlaupa að bílstjóranum til að spyrja hvort hann væri í lagi, en bílstjórinn hristi höfuðið til að gefa til kynna nei.
„Ég hljóp að henni og sagði: Hvað er að? og hún benti á hálsinn á sér, og svo hljóp ég aftur í vagninn og náði í eldri krakkana,“ sagði Catrina við fjölmiðla. Catrina setti einnig handbremsuna á til að koma í veg fyrir að strætó færi niður hæðina.
Skömmu síðar hélt bílstjórinn áfram að hrista höfuðið og hélt uppi talstöðinni og gaf bróður Catrinu, Charlie, merki um að eitthvað væri að. Charlie greip þá talstöðina og lét vita að aðstoðar væri þörf.
„Við þurfum hjálp … bílstjórinn andar ekki,“ sagði Charlie og gaf upplýsingar um vagninn og staðsetningu hans.
„Ég var svolítið skjálfandi og þetta var ógnvekjandi þegar þetta var yfirstaðiði. Ég var að reyna að halda krökkunum rólegum og passa að þau yrðu ekki hrædd og reyndi að koma þeim aftast í rútuna,“ sagði Charlie.
Þegar hann var spurður hvernig hann vissi hvernig ætti að nota talstöðina svaraði hann: „Ég horfði á nokkrar Dukes of Hazzard myndir, maður verður bara að vera rólegur og gera það sem þarf að gera.“
Bílstjórinn, sem sagðist vera þakklátur fyrir að hafa lagt sig fram um að kenna nemendum sínum hvernig ætti að nota talstöðina í neyðartilvikum, var fluttur á sjúkrahús og síðar útskrifaður.
Jim Grubbs, skólastjóri Crestview, sagði einnig að auk Catrinu og Charlie hefði Kali, nemandi í 8. bekk hjálpað nemendum að komast aftast í rútuna og hringt í neyðarlínuna.
„Aðgerðir þessara nemenda voru sannarlega framúrskarandi,“ sagði skólastjórinn. „Þau héldu ró sinni, áttu skýr samskipti og hjálpuðu hvert öðru í aðstæðum sem hefðu getað verið miklu verri. Fjölskyldur þeirra ættu að vera ótrúlega stoltar.“