
Skjótur bati lögreglumannsins, sem heitir Jack Hibbert og er 22 ára, gengur kraftaverki næst en hann var aðeins búinn að vera fjóra mánuði í starfi þegar hann var skotinn.
Jack var við störf á Bondi-ströndinni þegar tveir byssumenn hófu skothríð og drápu fimmtán manns og særðu yfir 40. Auk þess að fá kúlu í höfuðið var hann einnig skotinn í öxlina.
BBC greinir frá því að Jack hafi misst sjón á öðru auga eftir árásina, en sé nú útskrifaður af sjúkrahúsi og jafni sig heima í faðmi fjölskyldu sinnar.
„Fyrir okkur sem fjölskyldu er ekkert dýrmætara en að hafa Jack heima, og að það skuli gerast um jólin upplifum við sem sannkallað kraftaverk,“ sagði í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans sem BBC vitnar til.
Í henni þakkaði fjölskyldan almenningi einnig fyrir mikinn og góðan stuðning og hrósaði heilbrigðisstarfsfólki fyrir einstaka umönnun og elju.
„Þótt hann sé kominn heim er langt bataferli fram undan og hann mun þurfa næði, stuðning og áframhaldandi jákvæðar hugsanir á þessum tíma,“ bætti fjölskyldan við í yfirlýsingu sinni.
Jack var annar tveggja lögreglumanna sem slösuðust í skotárásinni. Hinn, lögreglumaðurinn Scott Dyson, 25 ára, er enn á sjúkrahúsi að jafna sig af meiðslum sínum.
Mal Lanyon, lögreglustjóri í New South Wales, segir að lögregla muni standa þétt við bakið á Jack og finna viðeigandi verkefni fyrir hann þegar hann hefur náð sér.