
Samkvæmt nýrri rannsókn stal landið rafmyntum fyrir 2,02 milljarða Bandaríkjadala árið 2025 í samanburði við 1,3 milljarða dala árið 2024. Hafa hakkarar á vegum Norður-Kóreumanna einkum beint spjótum sínum að rafmyntunum bitcoin og ethereum.
Talið er að samanlagt verðmæti rafmynta sem Norður-Kóreu hefur stolið nemi nú 6,75 milljörðum dala.
Þá segir í skýrslunni að heildarupphæð stolinna rafmynta á heimsvísu hafi aukist á sama tíma í 3,4 milljarða dala. Á þessu sést að Norður-Kóreumenn hafa mikla yfirburði þegar kemur að þjófnaði á rafmyntum.
Í frétt NBC News, sem fjallar um málið, kemur fram að verulegur hluti þessarar upphæðar megi rekja til tölvuárásar á rafmyntafyrirtækið Bybit í Dúbaí fyrr á þessu ári. Tölvuþrjótarnir eru sagðir hafa starfað fyrir svokallaða úrvalssveit tölvuþrjóta sem yfirvöld starfrækja.
Sameinuðu þjóðirnar og óháðir rannsakendur hafa lengi sakað Norður-Kóreu, sem býr við víðtækar alþjóðlegar þvingunaraðgerðir, um að nota tölvuþrjóta sína til að stela rafmyntum til að fjármagna kjarnorku- og eldflaugaáætlanir landsins.