fbpx
Fimmtudagur 20.nóvember 2025
Pressan

Rússar lokka úkraínsk ungmenni til að fremja voðaverk í eigin landi

Pressan
Fimmtudaginn 20. nóvember 2025 10:11

Vlad var undir eftirliti þegar hann kom sprengjunni fyrir. Mynd: BBC/SBU

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rússar eru sagðir stunda það með skipulögðum hætti að lokka til sín úkraínsk ungmenni til að fremja voðaverk af ýmsu tagi í eigin landi. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu og ræðir meðal annars við sautján ára pilt sem fékk greitt fyrir að koma fyrir sprengju.

Í umfjölluninni kemur fram að í júlí síðastliðnum hafi pilturinn ferðast 800 kílómetra frá heimili sínu í austurhluta Úkraínu til að sækja sprengju og síma sem búið var að koma fyrir í garð í vesturhluta landsins, borginni Rivne.

Lofað 250 þúsund krónum

Piltinum, sem kallaður er Vlad í umfjölluninni, var lofað sem nemur rúmum 250 þúsund krónum fyrir að koma sprengjunni svo fyrir í sendibifreið sem notuð var af úkraínska hernum.

„Þegar ég var að tengja vírana hugsaði ég að þetta gæti sprungið strax. Ég hugsaði að ég gæti dáið,“ segir hann í samtali við BBC.

Í umfjöllun BBC kemur fram að Vlad sé í hópi nokkur hundruð úkraínskra barna og unglinga sem úkraínsk yfirvöld segja að Rússar hafi ráðið í gegnum netið til að fremja skemmdarverk eða gera árásir í eigin landi.

Vlad segir að hann hafi fengið skýr fyrirmæli um hvernig hann ætti að bera sig að þegar hann kæmi fyrir sprengjunni. Var honum sagt að stilla símann þannig að hann sendi myndstreymi beint til þess sem stjórnaði aðgerðinni, svo hægt væri að sprengja tækið þegar einhver færi inn í bílinn.

Gæti fengið 12 ára dóm

Öryggisþjónusta Úkraínu, SBU, hafði hins vegar fylgst með og kom í veg fyrir árásina. Vlad – sem er nú orðinn 18 ára – bíður réttarhalda og gæti hann fengið tólf ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur.

BBC ræddi við Vlad í gæsluvarðhaldsfangelsi í Rivne og viðurkennir hann fúslega að hann hefði getað orðið valdur að dauða einhvers. „Ég hugsaði um það. En engum líkar við starfsmenn herskyldunnar,“ segir hann. „Ég hugsaði: Nú, ég verð bara eins og allir hinir.“

Öryggisþjónusta Úkraínu segir að á síðustu tveimur árum hafi kennsl verið borin á meira en 800 úkraínsk ungmenni sem Rússar höfðu reynt að ráða – þar af 240 börn, sum aðeins ellefu ára gömul. BBC ræddi við netöryggissérfræðinginn Anastasiia Apetyk sem segist þekkja dæmi um enn yngri einstaklinga. „Þeir reyndu að ráða börn sem eru níu eða tíu ára,“ segir hún.

Þá ræddi BBC við Andriy Nebytov, varaforseta lögreglunnar í Úkraínu, sem segir að þetta sé markviss stefna hjá Rússum að finna finna viðkvæma einstaklinga sem hægt er að stjórna.

„Börn gera sér ekki alltaf grein fyrir afleiðingum gjörða sinna,“ segir hann. „Óvinurinn skammast sín ekki fyrir að nota börn til að útbúa sprengjur úr efnum sem þau geta fundið með einföldum hætti og koma þeim fyrir á stöðum eins og herskylduskrifstofum eða lögreglustöðvum.“

Ráða börn í gegnum Telegram og TikTok

SBU segir ráðninguna fyrst og fremst fara fram á Telegram, en einnig á TikTok og öðrum vinsælum samfélagsmiðlum. Yfirvöld segja að þeir sem dragist inn í þetta laðist að peningunum sem Rússar bjóða, en geri þetta ekki vegna stuðnings við málstað þeirra.

Frásögn Vlads staðfestir þetta og þvertekur hann fyrir að styðja Rússland og hann hafi raunar aldrei komið nálægt afbrotum áður. Hann hafði gengið í tvo hópa á Telegram og sent þar skilaboð um að hann væri að leita að fjarvinnu. Innan hálftíma fékk hann skilaboð frá manni sem kallaði sig Roman og spjölluðu þeir saman í nokkur skipti. Eitt leiddi af öðru og áður en langt um leið hafði Vlad samþykkt að taka að sér verkefnið gegn veglegri greiðslu.

Hægt er að nálgast umfjöllun BBC hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Sérfræðingar segja foreldra eiga að biðja börn um „samþykki“ fyrir bleyjuskiptum

Sérfræðingar segja foreldra eiga að biðja börn um „samþykki“ fyrir bleyjuskiptum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Finnur fyrir „ógleði“ vegna aldursmunarins í Litla húsinu á sléttunni

Finnur fyrir „ógleði“ vegna aldursmunarins í Litla húsinu á sléttunni
Pressan
Fyrir 6 dögum

Rekin úr vinstri flokki – Er í sambandi með hægri öfgamanni sem skipulagði hryðjuverk

Rekin úr vinstri flokki – Er í sambandi með hægri öfgamanni sem skipulagði hryðjuverk
Pressan
Fyrir 6 dögum

Sögðu áhrifavaldinn hafa látist í hræðilegu slysi – Nú er sannleikurinn kominn í ljós

Sögðu áhrifavaldinn hafa látist í hræðilegu slysi – Nú er sannleikurinn kominn í ljós
Pressan
Fyrir 1 viku

Verður leiddur fyrir aftökusveit á föstudag: Sagður vera stórskemmdur eftir áfengis- og eiturlyfjanotkun móður hans

Verður leiddur fyrir aftökusveit á föstudag: Sagður vera stórskemmdur eftir áfengis- og eiturlyfjanotkun móður hans
Pressan
Fyrir 1 viku

Þrettán ára piltur notaði ChatGTP til að skipuleggja morð á nágranna sínum

Þrettán ára piltur notaði ChatGTP til að skipuleggja morð á nágranna sínum