Í vikunni var maður nokkur dæmdur í fangelsi í Skotlandi fyrir tvær nauðganir. Maðurinn hafði flúið land eftir að hafa reynt að setja sinn eigin dauða á svið með því að skilja eftir sig falsað sjálfsvígsbréf. Lögreglan trúði því þó aldrei að maðurinn hefði raunverulega tekið eigið líf en það var ábending sem barst Sky News sem kom lögreglunni aftur á spor nauðgarans.
Maðurinn heitir James Clacher og er á sextugsaldri. Hann var sakfelldur í síðasta mánuði en dómur var kveðinn upp yfir honum í vikunni. Fyrir að nauðga tveimur konum hlaut hann alls 10 ára dóm þar af 8 ár í fangelsi en síðustu tvö árin verður hann utan fangelsis en undir eftirliti.
Clacher starfaði áður sem stjórnandi líkamsræktarstöðvar. Hann lét sig hverfa í maí 2022 þegar konurnar höfðu báðar lagt fram kæru á hendur honum. Hann skildi bílinn sinn eftir við Loch Long sem er um 40 kílómetra norðvestur af Glasgow. Í bílnum skildi Clacher eftir bréf þar sem hann fullyrti að hann ætlaði sér að taka eigið líf. Hann sagði að konan sem hann nauðgaði fyrst myndi ekki hætta fyrr en hann væri dauður eða í fangelsi. Konan segist alls ekki hafa viljað Clacher feigan heldur að hann færi í fangelsi.
Lögreglan trúði því ekki að Clacher myndi svipa sig lífi og hafin var umfangsmikil leit. Talið var líklegast að hann hefði ekki farið langt og tjaldað í nágrenninu. Hann fannst hins vegar ekki.
Einu og hálfu ári síðar, í nóvember 2023 barst Sky News ábending um að Clacher héldi til í bænum Nerja á Spáni en bærinn er í nágrenni borgarinnar Malaga í suðurhluta landsins. Fram kom í ábendingunni að Clacher væri tíður gestur í tiltekinni líkamsræktarstöð í bænum.
Sky News kom upplýsingunum áleiðis til skosku lögreglunnar. Við tók sameiginleg rannsókn lögregluyfirvalda á Spáni og í Skotlandi og Bretlandi sjálfu. Sex mánuðir liðu í viðbót þar til Clacher var handtekinn af lögreglu á Spáni en þá var hann í miðjum klíðum að stunda líkamsæfingar á strönd.
Í Nerja hafði Clacher komið sér vel fyrir. Hann gekk undir dulnefninu Johnny Wilson, átti í ástarsambandi við konu í bænum, starfaði sem garðyrkjumaður og kenndi jóga á ströndinni.
Eftir handtökuna var hann framseldur til Skotlands.
Rannsóknarlögreglumaður segir að ábendingin sem upphaflega barst Sky News hafi vissulega verið lykillinn að því að hafa hendur í hári Clacher.
Hann lýsti sig saklausan og sagði konurnar hafa veitt samþykki sitt.
Fyrri nauðgunina framdi hann í ágúst 2019 á heimili konunnar en þá síðari á heimili þeirrar konu í september 2020 en konurnar höfðu báðar kynnst Clacher á stefnumótaöppum.
Fyrir dómi báru síðan tvær aðrar konur vitni og sögðu Clacher hafa áreitt sig kynferðislega með óviðeigandi snertingu en bæði atvikin áttu sér stað í líkamsræktarstöð. Þær konur tilkynntu báðar áreitnina til lögreglu en þá hafði Clacher þegar verið kærður fyrir báðar nauðganirnar. Í kjölfarið lagði hann á flótta.
Í réttarhöldunum kom einnig fram að Clacher hafði logið til um aldur sinn á öppunum og logið til um fornafn sitt þegar hann hitti þolanda fyrri nauðgunarinnar. Hann laug einnig að konunni að bróðir hans hefði dáið. Hann mun síðan hafa hagað sér með sams konar hætti í seinna tilfellinu.
Dómari málsins sagði flótta Clacher vera merki um heigulshátt og hann hafi ekki sýnt nein merki um iðrun. Konunarnar sem hann nauðgaði hafa báðar lýst yfir að þær hafi brotnað algerlega saman eftir nauðganirnar.
Auk fangelsisdómsins var Clacher settur á skrá yfir kynferðisbrotamenn og verður nafn hans á henni ótímabundið.