Það er ekki mjög alvörugefið, fólkið sem starfar í þágu bandarísku þjóðarinnar í Hvíta húsinu. Því var kannski ekki við því að búast að tónlistarmaðurinn Kenny Loggins fengi afsökunarbeiðni eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti notaði lag hans, Danger Zone, í leyfisleysi.
Forsetinn notaði lagið í gervigreindarmyndband þar sem hann gerði grín að mótmælum sem fóru fram gegn honum um helgina. Mótmælin fóru fram víða um Bandaríkin undir nafninu Engir kóngar, eða No Kings, og var ætlað að mótmæla meintum einræðistilburðum forsetans. Trump svaraði fyrir sig með áðurnefndu myndbandi en þar sýnir gervigreindin hann í flugvél að fljúga yfir mótmælin og varpa skít á mótmælendur.
Loggins sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist ekki hafa heimilað þessa notkun á lagi sínu.
„Þetta er heimildarlaus notkun á flutningi mínum á Danger Zone. Enginn bað mig um leyfi, sem ég hefði ekki veitt og ég óska eftir því að upptakan mín í þessu myndbandi verði fjarlægð undir eins. Ég get ekki ímyndað mér hvers vegna nokkur myndi vilja að tónlist þeirra væri notuð eða tengd við eitthvað sem er skapað aðeins til að sundra okkur. Of margir eru að reyna að slíta samfélagið okkar í sundur og við verðum að finna nýjar leiðir til að koma saman. Við erum öll Bandaríkjamenn og við erum öll föðurlandsvinir. Það er ekkert „við og þau“ – þannig erum við ekki og þannig ættum við ekki að vera. Við erum heild. Við erum í þessu saman og ég vona að við getum notið tónlistar sem leiðar til að fagna og sameina.“
Hvíta húsið var beðið um viðbrögð við yfirlýsingu Loggins. Í staðinn fyrir að senda yfirlýsingu sendi embætti forsetans jarm (e. meme) úr myndinni Top Gun sem gerði lagið Danger Zone ódauðlegt. Í jarminu stóð: I feel the need for speed.