DV fjallaði um málið í gær en Gus hvarf af afskekktri jörð afa síns og ömmu um 40 kílómetrum suður af bænum Yunta í suðurhluta Ástralíu.
Þrátt fyrir að umfangsmikil leit hafi staðið yfir í næstum viku, með hundruðum sjálfboðaliða, leitarhundum, drónum, fjórhjólum, köfurum og hitamyndavélum, eru einu ummerkin sem hafa fundist eitt fótspor um 500 metrum frá heimili fjölskyldunnar.
Ian Parrott, yfirlögregluþjónn á svæðinu, tilkynnti í morgun að ólíklegt væri að Gus fyndist á lífi. Leitaraðgerðir síðustu daga eru með þeim umfangsmestu sem orðið hafa í suðurhluta Ástralíu en þrátt fyrir það hafa sárafáar vísbendingar fundist um drenginn. Eitt fótspor, um 500 metrum frá heimili afans og ömmunnar, er það eina sem hefur fundist.
Lögregla segir málið nokkuð óvenjulegt og það hafi verið ólíkt Gus að fara einn á ókannaðar slóðir. Ýmsum tilgátum hefur verið varpað fram um hvarfið, eins og að hann hafi dottið ofan í yfirgefna námu á svæðinu. Nokkrar slíkar eru sagðar vera á svæðinu og það getur verið erfitt að koma auga á þær. Lögregla segist ekki telja að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.
Bent hefur verið á að árstíminn sé heppilegur fyrir dvöl í óbyggðum þar sem hvorki er mjög heitt eða kalt úti. En þar sem Gus er aðeins fjögurra ára þykja litlar líkur á að hann geti bjargað sér í svo marga daga.
„Við erum sannfærð um að við höfum gert allt sem við getum til að finna Gus, en þrátt fyrir það hefur það ekki tekist. Af þeim sökum verður dregið úr leitinni að Gus,“ sagði Parrott en tók fram að leit yrði ekki hætt og málið rannsakað áfram. „Það eina sem við höfum komist að er hann hafi einfaldlega ráfað í burtu,“ sagði hann.