Stúlkan fannst ein og yfirgefin í pappakassa í vegkanti í borginni Tuguegarao þann 24. september síðastliðinn. Segja má að stúlkan sé stálheppin að vera á lífi.
Það var vegfarandi, amma á besta aldri, sem gekk fram á stúlkubarnið snemma að morgni miðvikudagsins í síðustu viku. Hún hafði samband við lögreglu og var barnið flutt til skoðunar á spítala þar sem í ljós kom að það var við góða heilsu.
Talið er að stúlkan hafi verið innan við eins dags gömul þegar hún fannst. Hún dvaldi á sjúkrahúsi í nokkra daga en er nú komin í hendur félagsmálayfirvalda á meðan lögregla rannsakar málið og reynir að komast að því hver móðirin er.
Jose Nartatez Jr., lögreglustjóri á svæðinu, segir í samtali við AP að tilviljun hafi í raun ráðið því að stúlkan fannst. Ef ekki hefði verið fyrir skjót viðbrögð vegfarandans væri stúlkan mögulega ekki á lífi.