Sveppa ætti aðeins að neyta í hófi. Þetta segir danska matvælastofnunin, Fødevarestyrelsen, í færslu á Facebook þar sem er vísað til rannsókna sem bendi til þess að sveppir innihaldi efni sem geti verið krabbameinsvaldandi. Mælst er með því að fólk borði ekki hráa sveppi og ekki meira en tvö kíló á ári.
Nyheder vekur athygli á málinu og er þar tekið fram að sveppir innihalda náttúrulegt eitur, sem kallast phenylhydrazine, í snefilmagni en rannsóknir á dýrum bendi til þess að efnið sé krabbameinsvaldandi. Þar með sé fullt tilefni til að endurskoða stöðu sveppa í mataræðinu. Fødevarestyrelsen bendir á að sveppir séu ekki grænmeti og ef fólk ætlar að neyta þeirra er best að hita þá vel, forðast að borða þá hráa og helst steikja þá eða sjóða og henda svo vökvanum sem kemur af þeim eða leyfa honum að gufa alveg upp.
Matvælafræðingurinn Anne W. Ravn, sem starfar hjá háskólanum í Aarhus, segir við Nyheder að margir haldi ranglega að sveppir séu grænmeti og því hollir. Frekar ætti að líta á sveppi sem krydd.
Færsla Fødevarestyrelsen hefur vakið mikla athygli. Í athugasemdum virðast margir ráðvilltir og spyrja hvort að stofnunin sé að byggja ráðleggingar sínar á tilgátu frekar en afgerandi niðurstöðum þar sem aðeins er búið að framkvæma rannsóknir á áhrifum eitursins á dýr. Eins hefur verið bent á aðrar rannsóknir sem sýna að neysla sveppa geti dregið úr líkum á krabbameini.