Þegar kosið var um ríkisstjóra í Kaliforníu árið 2021 deildi konan, Laura Yourex, mynd af hundi sínum. Hundurinn var þar með sérstakan límmiða sem kjósendur fá þegar þeir hafa skilað inn atkvæði sínu.
Yourex deildi svo annarri mynd í kringum forsetakosningarnar á síðasta ári en þar mátti sjá hundaól og kjörseðil. Með myndinni skrifaði Yourex: „Maya er enn að fá kjörseðilinn sinn“ en hundurinn var þá dauður.
Þetta vakti athygli fólks og fór svo að Yourex tilkynnti sjálfa sig til yfirvalda og gekkst við því að hafa skráð hundinn sinn á kjörskrá. Yourex var í kjölfarið ákærð fyrir brot á borð við skjalafölsun og kosningasvik.
Verjandi Yourex segir að um gjörning hafi verið að ræða sem átti að varpa ljósi á glufur í kosningakerfinu.
„Laure Yourex sér virkilega eftir vanhugsaðri tilraun sinni til að afhjúpa galla í kosningakerfinu okkar þar sem hún ætlaði sér að stuðla að úrbótum með því að sýna að jafnvel hundur kæmist inn á kjörskrána.“