Ekkert spurðist til föðurins og barnanna þar til í gær að tilkynnt var um innbrot í verslun á strjálbýlu svæði í Waitomo-héraði.
Lögregla kom á vettvang í þann mund sem maður á fjórhjóli var að aka af vettvangi. Upphófst eftirför sem endaði þannig að maðurinn skaut úr byssu sinni og lögregla svaraði í sömu mynt. Lögregluþjónn er sagður hafa slasast alvarlega þegar hann varð fyrir skoti en Tom lést af sárum sínum.
Lögregla hefur á undanförnum árum leitað Tom og barnanna og þrátt fyrir að vegleg fundarlaun væru í boði bar leitin ekki árangur.
Börnin, Ember 9 ára, Maverick 10 ára og Jayda 12 ára, eru sögð hafa fundist heil á húfi á tjaldsvæði skammt frá.
Í frétt BBC er vísað í yfirlýsingu sem móðir barnanna, Cat, sendi til RNZ-fréttastofunnar. Segir hún að henni sé mjög létt yfir því að börnin séu fundin heil á húfi en miður sín vegna lögregluþjónsins sem nú berst fyrir lífi sínu.
Talið er að Tom og börnin hafi dvalið í óbyggðum Nýja-Sjálands síðastliðin fjögur ár en ekki hefur verið útilokað að hann hafi notið einhvers konar aðstoðar. Hann var mjög vanur útivistarmaður og hafði áður farið með börn sín út í óbyggðir í nokkrar vikur í senn án þess að láta nokkurn vita.