fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Pressan

Járntjaldið verður til – Frægasta og ein mikilvægasta ræða Winston Churchill

Pressan
Sunnudaginn 24. mars 2024 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 5. mars 1946 flutti Winston Churchill, forsætisráðherra Stóra-Bretlands, eina frægustu og mikilvægustu ræðu sína. Þetta gerði hann í Fulton í Missouri í Bandaríkjunum. Ekki má draga úr vægi margra ræðna sem Churchill flutti á stjórnmálaferli sínum en hann leiddi Breta í gegnum síðari heimsstyrjöldina og var óþreytandi við að stappa stálinu í þjóðina og hvetja hana til dáða. Þegar hann flutti ræðuna í Fulton var hann ekki lengur ráðherra. Ræðunni hefur verið líkt við frægar ræður þekktra manna, ræður sem mörkuðu tímamót. Henni hefur til dæmis verið líkt við ræðu Martins Luthers King „I Have a Dream“ 1963 en sú ræða hafði mikil áhrif á baráttu blökkumanna fyrir eðlilegum mannréttindum í Bandaríkjunum.

Segja má að ræða Churchill hafi markað upphaf kalda stríðsins þrátt fyrir að fræjum þess hafi verið sáð nokkru áður og þau hafi verið að spíra misserin á undan. Ræðan endurspeglaði þann nýja veruleika sem Bandaríkin og vestræn lýðræðisríki stóðu nú frammi fyrir og spáði fyrir um hvernig ætti að heyja hið nýja „kalda stríð“ án þess að til þriðju heimsstyrjaldarinnar kæmi. Churchill hafði átt í erfiðleikum með að fá bandarísk stjórnvöld til að líta fram á veginn og átta sig á hugsanlegum erfiðleikum í samskiptum við Sovétríkin eftir síðari heimsstyrjöldina. Skömmu fyrir Yaltafundinn í febrúar 1945, þar sem Churchill fundaði með Stalín og Roosevelt (leiðtogum Sovétríkjanna og Bandaríkjanna) sagði hann við Roosevelt:

„Núna held ég að endirinn á þessu stríði geti vel orðið meiri vonbrigði en endir síðasta stríðs.“

Þegar Churchill hélt til Bandaríkjanna 1946 óttaðist hann einna mest að vestræn lýðræðisríki gerðu sömu mistökin aftur, mistökin sem höfðu nærri gengið af þeim dauðum áratug áður. Í bókinni The Gathering Storm, sem var fyrsta bókin af sex í ritröð Churchill um síðari heimsstyrjöldina, skrifaði hann að vestræn lýðræðisríki þyrftu aðeins að hegða sér aftur á sama, vel meinandi háttinn gagnvart þeim vandamálum sem steðjuðu að til að hrinda þriðju alheimsátökunum af stað en þau myndi jafnvel enginn lifa af.

Harry Truman Bandaríkjaforseti greip fljótlega til aðgerða gegn Sovétríkjunum að stríðinu loknu en ekki var enn ljóst hvort Bandaríkin ætluðu að taka sér stöðu leiðtoga hins frjálsa heims eða taka saman höndum við ríki Vestur-Evrópu í varnarbandalagi gegn Sovétríkjunum. Enn var óljóst hvað Sovétmenn ætluðu sér í Íran og Austur-Evrópu. Kommúnistar áttu möguleika á að komast í ríkisstjórnir í Frakklandi, Ítalíu og á Spáni. Bandaríkin voru að afvopnast eftir sigurinn yfir Japönum sex mánuðum áður og horfðu fram á veginn og hlökkuðu til friðartíma. Churchill vissi vel að varnaðarorð hans myndu varpa skugga á þetta allt.

Ræða Churchill lagði grunninn að NATO og áætlunum Vesturlanda til að verjast ágangi Sovétríkjanna. Hugtakið járntjaldið, Iron Curtain, lýsti harðstjórn Sovétríkjanna sem teygði sig yfir Austur-Evrópu. Almenningur kynntist hugtakinu í ræðu Churchill en hann hafði áður notað það í símskeyti til Truman í maí árinu áður, rétt eftir að Þjóðverjar gáfust upp fyrir herjum Bandamanna.

„Ég er ákaflega áhyggjufullur yfir stöðunni í Evrópu. Það er verið að draga járntjald fyrir framlínu þeirra,“ skrifaði hann um sovésku herina sem voru að taka sér varanlega stöðu í Austur-Evrópu.

„Ég er ákaflega áhyggjufullur yfir stöðunni í Evrópu. Það er verið að draga járntjald fyrir framlínu þeirra“

Fann kannski hugtakið „járntjaldið“ ekki upp

Churchill hefur oft verið sagður hafa fundið hugtakið „járntjaldið“ upp en það er kannski ákveðin kaldhæðni að hann hefur hugsanlega sótt það í smiðju Schwerin von Krosigk sem var utanríkisráðherra Þýskalands á síðustu dögum stríðsins. Í útvarpsávarpi nokkrum dögum fyrir uppgjöf Þjóðverja sagði Krosigk: „Í austri er járntjaldið en á bak við það, hulið augum umheimsins, er eyðileggingarstarfið í fullum gangi og heldur stöðugt áfram fram á við.“

En óháð því hvaðan hugtakið kom þá hafði Churchill lengi haft áhyggjur af að ástand sem þetta gæti komið upp. Árið 1970, fimm árum eftir andlát Churchill, rifjaði Harold Macmillan, forsætisráðherra upp samtal sem hann átti við Churchill snemma árs 1942 þegar þeir voru í matarboði hjá Eisenhower, yfirmanni herja Bandamanna í Alsír á þeim tíma. Macmillan sagði að á þessum tíma „vorum við að tapa stríðinu en nú voru Bandaríkin komin til sögunnar og Churchill hafði komist að þeirri niðurstöðu að einræðisstjórn nasista yrði sigruð en alræðisstjórn kommúnista myndi taka stöðu þeirra sem ógn við Evrópu og heiminn.“

Ræðan

Eftir að Harry Truman Bandaríkjaforseti hafði kynnt Churchill steig hann í pontu í Westminster-háskólanum í Scoffing í Fulton í Missouri sem var heimaríki Truman. Í upphafi sagði Churchill að hann vildi gera það alveg ljóst að hann væri ekki í opinberum erindagjörðum og talaði aðeins á eigin vegum. Því næst ræddi hann um að verkefni heimsbyggðarinnar væri að koma í veg fyrir enn eitt alheimsstríðið og sagði að Sameinuðu þjóðirnar ættu að gegna mikilvægu hlutverki í því, sem og Bandaríkin og Bretland. Því næst bætti hann í og fór að lýsa Evrópu eftir stríð og sagði að skuggi hefði fallið á sviðið í kjölfar sigurs Bandamanna.

„Frá Stettin við Eystrasalt til Trieste við Adríahaf hefur járntjald lagst yfir álfuna. Aftan við þá línu eru allar höfuðborgir og gömlu ríki Mið- og Austur-Evrópu: Varsjá, Berlín, Prag, Vín, Belgrad, Búdapest og Sofia. Allar þessar frægu borgir og íbúar eru nú á því sem ég verð að kalla áhrifasvæði Sovétríkjanna …“

Ræðan vakti mikinn titring ráðamanna í Washington og Lundúnum og víðar. Hún vakti heimsathygli og járntjaldið var komið til að vera næstu áratugina.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Harmleikur í Svíþjóð – Tvö börn fundust látin

Harmleikur í Svíþjóð – Tvö börn fundust látin
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tæplega helmingur kínverskra stórborga er að sökkva

Tæplega helmingur kínverskra stórborga er að sökkva
Pressan
Fyrir 3 dögum

Sýknaður af ákæru um ölvunarakstur – Þjáist af „bruggsjúkdómi“

Sýknaður af ákæru um ölvunarakstur – Þjáist af „bruggsjúkdómi“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Sanna sagan á bak við Netflixþættina Baby Reindeer sem hafa slegið í gegn – Hvað varð um Richard og Mörthu og hver er hin raunverulega Martha?

Sanna sagan á bak við Netflixþættina Baby Reindeer sem hafa slegið í gegn – Hvað varð um Richard og Mörthu og hver er hin raunverulega Martha?
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Ósigrandi“ stúlknalið fór ósigrað í gegnum tímabilið í „strákadeildinni“

„Ósigrandi“ stúlknalið fór ósigrað í gegnum tímabilið í „strákadeildinni“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Airbnb-húsið frá helvíti – Móðir og fjögur börn í stórhættu

Airbnb-húsið frá helvíti – Móðir og fjögur börn í stórhættu