fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Pressan

Fann vefsíðu á netinu þar sem fólk kaupir þjónustu leigumorðingja – Setti sig í samband við fólk en í einu tilfelli var það orðið of seint

Pressan
Miðvikudaginn 16. október 2024 22:00

Carl Miller.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hvernig myndir þú bregðast við ef einhver nákominn þér hefði sett þig á „dauðalista?“ Að einhver, mögulega einhver náinn þér, vildi þig feigan og væri tilbúinn að greiða háa upphæð til að drepa þig?“

Svona hefst pistill sem tækniblaðamaðurinn Carl Miller skrifaði og birti á vef Daily Mail í vikunni. Miller útbjó hlaðvarpsþáttaröð sem frumflutt var á dögunum og er óhætt að segja að hún hafi vakið mikla athygli.

Í hlaðvarpinu, sem heitir Kill List, fer Miller í saumana á rannsókn sinni sem hófst árið 2018 um skuggalegustu vefsíður huldunetsins þar sem leigumorðingjar ganga kaupum og sölum.

Myrt af eiginmanni sínum

Í pistli sínum segir Miller að allt þetta hafi byrjað þegar kollegi hans benti honum á vefsíðu á huldunetinu (e. dark web) árið 2018 þar sem fólk auglýsti eftir leigumorðingjum í ákveðin verkefni. Með auglýsingunum fylgdu oftar en ekki nöfn og heimilisföng hugsanlegra skotmarka. Carl reyndi að setja sig í samband við þessa einstaklinga sem birtust í þessum auglýsingum til að vara þá við.

„Í mörgum tilfellum voru þetta karlar sem vildu láta drepa eiginkonur sínar, kærustur eða fyrrverandi maka. Aðrar auglýsingar vörpuðu ljósi á einhvers konar ástarþríhyrninga eða fjölskyldudeilur. Og í einu tilfelli, eins og ég lýsi í hlaðvarpinu, komst ég að því að búið væri að myrða eitt ákveðið skotmark sem þarna birtist.“

Um var að ræða 43 ára konu, Amy Allwine, frá Minnesota í Bandaríkjunum, en auglýsing um hana birtist í umræddum hópi á huldunetinu. Síðar kom í ljós að eiginmaður hennar, Stephen, hafði komist að samkomulagi við einstakling um verkefnið. Á endanum fór það svo að Stephen tók verkefnið sjálfur að sér og reyndi að láta líta út eins og um sjálfsvíg hefði verið að ræða. Segir Miller að grunsemdir hefðu vaknað hjá lögreglu eftir að Stephen krafðist þess að fá að hafa lögmann viðstaddan þegar lögregla ræddi við hann um sjálfsvíg eiginkonunnar.

„Þegar lögregla rannsakaði innihald síma hans kom í ljós að hann hafði hitt fjölda kvenna í gegnum stefnumótaforrit. Og það sem meira er var sú staðreynd að hann hafði verið að senda skilaboð og peninga til vefsíðu á huldunetinu þar sem leigumorðingjar ganga kaupum og sölum,“ segir Miller í greininni.

Lögregla hreyfði sig mjög hægt

Miller segist hafa ákveðið að skoða umrædda síðu á huldunetinu og ákveðið að hafa samband við lögreglu. „Þar sem ég er búsettur í Bretlandi var það breska lögreglan sem ég ræddi við. En ég var fljótur að komast að því að lögregla, bæði hér og erlendis, hreyfði sig mjög hægt, þannig að ég reyndi sjálfur að komast í samband við þetta fólk,“ segir hann og bætir við að þetta hafi verið hálf súrrealísk upplifun. „Alveg sama hvað ég reyndi að skrifa handritið að þessum samtölum í kollinum þá var engin auðveld leið að segja einhverjum ókunnugum að einhver vildi drepa viðkomandi.“

Miller segir að sumir hafi talið hann vera einhvers konar brjálæðing eða svikahrapp jafnvel. Úr varð að Miller fékk blaðamenn með sér í lið sem höfðu samband við þá einstaklinga sem voru á listanum.

„Fyrsta konan sem við komumst í samband við heitir Elena og er á sjötugsaldri. Ég bjóst við því að hún fengi áfall en það kom mér á óvart þegar hún sagði að þetta kæmi henni ekki á óvart,“ segir Miller en Elena, sem er búsett í Sviss, útskýrði að hún stæði í ljótum skilnaði þar sem miklir peningar eru í spilinu. Hafði fyrrverandi eiginmaður hennar komist að samkomulagi við „leigumorðingja“ um að greiða viðkomandi um eina milljón króna fyrir að myrða hana.

Miller tekur fram í grein sinni að síðan sem fyrrverandi eiginmaður hennar notaðist við á huldunetinu hafi verið svikasíða og eina markmið hennar að hafa peninga af einstaklingum sem eru í leit að leigumorðingjum. Það breyti því þó ekki að fyrrverandi eiginmaður hennar, sem kallaður er Bruno, hafi viljað hana feiga og markmið hans og vilji verið augljós.

Besa Mafia

Miller segir að í kjölfarið hafi hann komist í samband við mann að nafni Chris Monteiro sem er kallaður sérfræðingur í málefnum huldunetsins. „Hann lét mig vita af síðu þar sem heitir Besa Mafia þar sem leigumorð voru auglýst í skiptum fyrir rafmynt. „Með því að grandskoða síðuna gat Chris komist inn í gagnagrunn síðunnar þar sem sjá mátti notendur hennar, hvað þeir vildu greiða fyrir morð og hvern þeir vildu drepa.“

Miller segir að maðurinn á bak við Besa Mafia hafi ekki verið neinn leigumorðingi heldur svikahrappur sem vildi hafa pening af fólki. Stephen, sem fjallað er um í greininni hér að framan, hafði einmitt komist í kynni við sinn leigumorðingja í gegnum Besa Mafia en verið orðinn þreyttur á biðinni.

„Þrátt fyrir allt þetta gekk mér bölvanlega að ná eyrum lögregluyfirvalda í Bretlandi, Evrópu eða Bandaríkjunum að skoða þessa lista. Breska lögreglan sendi tvo lögreglumenn til mín í Covid sem voru mjög kurteisir en höfðu jafnframt áhyggjur af geðheilsu minni. Breska lögreglan var tilbúin að hlusta en þar sem engin skotmörk voru í Bretlandi gat hún gert lítið annað en að senda erindi mitt til Interpol,“ segir hann.

Aðkoma FBI reyndist himnasending

Miller segir að þetta hafi breyst þegar þeir settu sig í samband við konu að nafni Jennifer í Spokane í Washington í Bandaríkjunum. „Einhver með notendanafnið Scar215 hafði boðið 10 þúsund dollara gegn því að Jennifer yrði rænt.“

Augljóst var að sá sem óskaði eftir þjónustunni var fyrrverandi eiginmaður hennar því það skilyrði fylgdi með að Jennifer yrði að taka aftur saman við sinn fyrrverandi, Dr. Ronald Ilg. Miller segir að Jennifer hefði flúið hjónaband sitt eftir að Ronald kom með aðra konu inn í sambandið og vildi að þau þrjú væru öll saman. Þá hefði hann verið heltekinn af BDSM-kynlífi. Miller segir að Jennifer hefði sett sig í samband við FBI og fór það lokum svo að Ronald var handtekinn. Hann var í fyrra dæmdur í átta ára fangelsi vegna málsins.

„Aðkoma FBI reyndist vera algjör himnasending fyrir okkur því á þessum tímapunkti höfðum við reynt að ná athygli lögregluyfirvalda um víða veröld í sambærilegum málum.“

Miller segir að lokum í grein sinni að hann og hans menn hafi sent nöfn 175 einstaklinga til lögregluyfirvalda á þeim tíma sem rannsóknin stóð yfir. Allt voru þetta einstaklingar sem einhver vildi drepa. „Í þessum málum hafa 28 verið sakfelldir og dæmdir í samtals meira en 150 ára fangelsi. En í meirihluta tilfella hefur enginn verið sakfelldur og sum þessara mála verða sennilega aldrei rannsökuð.“

Hægt er að nálgast hlaðvarpið Kill List á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Réðst á ísbjörn til að bjarga konunni sinni

Réðst á ísbjörn til að bjarga konunni sinni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Sakamál: Var framið réttarmorð á Rebeccu eða er hún besti lygari í heimi?

Sakamál: Var framið réttarmorð á Rebeccu eða er hún besti lygari í heimi?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þetta er besti morgunmaturinn til að tryggja þér orku allan daginn

Þetta er besti morgunmaturinn til að tryggja þér orku allan daginn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Heilinn getur skilið skrifaða setningu á „augabragði“

Heilinn getur skilið skrifaða setningu á „augabragði“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þetta finnst þjónum dónaleg hegðun gesta

Þetta finnst þjónum dónaleg hegðun gesta
Pressan
Fyrir 4 dögum

Næringarfræðingar ráðleggja fólki að borða þetta ekki með banana

Næringarfræðingar ráðleggja fólki að borða þetta ekki með banana