Krystal dvaldi á hótelinu um skamma stund árið 2022 og segist hún í stefnu sinni enn vera með ör á líkamanum eftir bitin. Hún hafi leitað sér læknismeðferðar á síðustu misserum og kostnaður hennar vegna málsins sé kominn í um tvær milljónir króna.
Krystal segir að tveimur dögum eftir að hún tékkaði sig inn á hótelið hafi hún vaknað um miðja nótt og verið með mikinn kláða. Hún hafi fljótlega rekið augun í veggjalús í rúminu og þegar henni var litið í spegil sá hún að húðin var upphleypt á bakinu og rassinum.
Í samtali við USA Today segir Krystal að hún hafi verið með verki og kláða svo vikum skiptir. Þetta hafi ekki bara haft líkamleg áhrif því málið hafi einnig lagst þungt á sálartetrið. Hún hafi þurft að farga öllum farangri, þar á meðal fötum.
Krystal hefur farið fram á 30 þúsund dali í bætur, rúmar fjórar milljónir króna. Heldur hún því fram að hótelið hafi vitað að veggjalýs væru í herberginu enda hefðu aðrir gestir sem á undan henni komu kvartað undan því sama.