Ása Guðbjörg Ellerup, kona af íslenskum ættum, komst í fréttirnar síðasta sumar þegar eiginmaður hennar, Rex Heuermann arkitekt, var handtekinn. Heuermann er grunaður um að vera raðmorðingi og bera ábyrgð á andláti minnst sex kvenna á árunum 1993 til 2011. Þegar Heuermann var handtekinn þurfti Ása að yfirgefa heimili sitt á Long Island á meðan lögregla gerði ítarlega húsleit. Húsleitin stóð yfir vikum saman og fjarlægði lögreglan ýmsa muni af heimilinu. Nú hefur Ása fengið eitthvað af eigum sínum til baka, en lögregla heldur þó eftir því sem telst til sönnunargagna.
Ása hefur stigið fram í fjölmiðlum og lýst hvernig málið hafi rústað lífi hennar sem og barna hennar tveggja, sem bæði eru fullorðin. Þau hafa reynt að láta lítið fara fyrir sér undanfarið ár en þó selt réttindin að sögu sinni til streymisveitunnar Peacock sem vinnur að heimildaþáttum um mál Heuermann sem hefur lýst yfir sakleysi.
Lögmaður Ásu segir nú í samtali við fjölmiðla að fjölskyldan sé þakklát að fá eigur sínar aftur. „Fjölskyldan er þakklát og fegin að fá nú eitthvað af persónulegum eignum sínum aftur,“ sagði Bob Macedonio við Newsday. Hann tók fram að þær eignir sem nú hafa fengist afhendar teljast ekki til sönnunargagna í máli ákæruvaldsins gegn Heuermann. „Við höfum átt í stöðugu sambandi við skrifstofu héraðssaksóknara og fyrir mánuði síðan byrjuðum við að endurheimta persónulega hluti sem embættið hefur metið að hafi ekkert sönnunargildi í málinu gegn Rex Heuermann.“
Meðal þess sem lögregla hefur skilað eru ýmis raftæki, tilefniskveðjur frá vinum og vandamönnum, gjafabréf og einkaskjöl. „Skrifstofan hefur eins látið okkur vita að fleiri eigum Ásu, Victoriu og Christopher verði skilað þegar þær hafa verið metnar.“
Victoria er dóttir Ásu og Rex en Christopher er sonur Ásu úr fyrra sambandi. Ása fór fram á skilnað sex dögum eftir að Heuermann var handtekinn. Lögmaður Christopher og Victoriu tekur þó fram að þau eigi enn eftir að fá mikilvægar eigur til baka, svo sem fornmuni, bækur, fatnað, skriffæri og persónuskilríki.
Ása og börn hennar voru rétt á ná sér á kjöl í maí á þessu ári þegar lögreglan sneri aftur til að gera nýja húsleit. Þetta hafi fjölskyldan upplifað sem enn eina árásina á einkalíf þeirra. Aftur var lífi þeirra og heimili snúið á hvolf.