Stofnunin notast við tvær Lockeed WP-3D-flugvélar við rannsóknir sínar og búnaður um borð gerir vísindamönnum kleift að safna saman mikilvægum upplýsingum um styrk yfirvofandi fellibylja.
Með þessum upplýsingum er hægt að grípa til ráðstafana áður en í óefni er komið enda búnaðurinn um borð háþróaður og nákvæmur.
Meðfylgjandi myndband er tekið um borð í annarri af flugvélum stofnunarinnar, sem gengur undir nafninu Miss Piggy, og er óhætt að segja að það sé ekki fyrir flughrædda.
Eðli málsins samkvæmt var mikil ókyrrð um borð þegar vélinni var flogið inn í „auga stormsins“.
Vísindamenn gera ráð fyrir því versta þegar Milton gengur á land og hefur viðvörun verið gefin út í alls 28 sýslum í Flórída, einkum á vesturströndinni. Nokkrar milljónir manna hafa verið hvattar til að yfirgefa heimili sín og var umferðaröngþveiti á þjóðvegum Flórída í gær.
Búist er við því að fellibylurinn gangi á land í kvöld að staðartíma, eða um eða eftir miðnætti að íslenskum tíma. Hafa vísindamenn varað við því að fellibylurinn gæti orðið sá versti í Flórída í hundrað ár.