Verkið er hluti af sýningu hans, Australia in colour, og vildi Gina að myndin yrði fjarlægð af sýningunni þar sem henni þótti hún heldur gribbuleg á myndinni. En myndin verður áfram hluti af sýningunni og hafa tilraunir Ginu nú gert það að verkum að myndin hefur ratað í heimspressuna.
Sýning Vincents opnaði í mars síðastliðnum og segir hann að á myndunum séu einstaklingar sem hafa haft áhrif á hann í gegnum árin – bæði á góðan og slæman hátt. Þetta eru ríkir eða valdamiklir einstaklingar og má til dæmis sjá myndir af útlaganum Ned Kelly og Elísabetu Bretlandsdrottningu.
Eigur Rinehart eru metnar á mörg hundruð milljarða króna en hún er erfingi námuveldis sem grætt hefur á tá og fingri síðustu áratugina. Hún þykir um margt umdeild og kom sér í fréttirnar þegar hún biðlaði til fátækra Ástrala að slaka á í áfengisdrykkjunni og vinna meira.
Samkvæmt upplýsingum frá Google Trends hefur orðið veruleg aukning á leitarorðunum „Gina Rinehart“ síðustu daga sem má rekja beint til umfjöllunar um verkið.
Þá hefur ástralski grínistinn Dan Ilic safnað rúmum tveimur milljónum króna til að koma myndinni fyrir á Times Square í New York. Er hann á góðri leið með að safna þeim fimm milljónum sem til þarf.