„Það þarf meiri neyðaraðstoð til Súdan ef við eigum ekki standa uppi með krísu af stærstu gerð,“ segir í fréttatilkynningu frá norsku ríkisstjórninni. Tilkynningin var send út eftir fund Anne Beathe Tvinneriem, þróunarmálaráðherra, með mannúðarsamtökum á borð við Læknar án landamæra og UNICEF.
Var ráðherranum skýrt frá því að ástandið sé svo slæmt að fólk borði laufblöð, rætur og engisprettur til að reyna að fá magafylli og að vannærð börn deyi í örmum foreldra sinna.
Tvinnereim segir að það sé ekki hægt að loka augunum fyrir því sem er að gerast í Súdan. Þar brjóti stríðandi aðilar þær reglur sem stríð eigi að fylgja og það verði að draga þá til ábyrgðar.
Í fréttatilkynningunni kemur fram að 18 milljónir landsmanna eigi í erfiðleikum með að verða sér úti um mat og að fimm milljónir séu á barmi hungursneyðar.