fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Pressan

Ertu að taka inn lyf að staðaldri? – Þá er þetta gott að hafa í huga

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 1. maí 2024 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú þegar sumarið er formlega gengið í garð samkvæmt dagatali og jafnvel farið að láta sjá sig í veðurspánni er gott að hafa í huga að sum lyf, sem fjöldi Íslendinga tekur inn, geta gert fólk viðkvæmara en ella fyrir hita, sérstaklega þeir sem eru komnir á heldri árin.

Þunglyndislyf

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum og víða vara almennt þá sem taka inn þunglyndislyf við því að ofhitna á sumrin þar sem lyfin geta dregið úr hitaþoli. Lyfin hafa áhrif á getu líkamans til að stjórna hita og geta dregið úr getu okkar til að kæla okkur niður svo sem í gegnum svita.

Fólk á þunglyndislyfjum er líklegra til að fá sólsting, yfirlið eða glíma við ofþornun í hita. Þetta eru þunglyndislyf á borð við TCA lyf á borð við amitriptyline, sem geta dregið úr svitamyndun. SSRI-lyf á borð við Sertral, Ciplralex og Fluoxetín – en þeu geta aukið svitamyndun og leitt til ofþornunar.

Læknar mæla gegn því að fólk hætti að taka lyfin sín á sólarströndum eða yfir heitustu mánuðina, en mæla þó með því að fólk hugi vel að kælingu, noti viftur, drekki nóg af vatni og gæti að söltum.

Blóðþrýstingslyf

Sum lyf sem lækka blóðþrýsting geta valdið hitaóþoli, sérstaklega beta-blokkerar og þíasíð. Þessi lyf geta verið þvagræsandi og valda því að fólk tapar meiri vökva. Beta-blokkerar draga úr flæði blóðs til húðarinnar sem geta komið í veg fyrir kælingu í gegnum svita.

Ofnæmislyf

Vinsælt er að taka ofnæmislyf á sumrin til að forðast flugubit. Andhistamín getur dregið úr svitamyndun og aukið líkur á ofhitnun.

ADHD-lyf

Vinsælustu lyfin sem gefin eru við ADHD eru örvandi efni, svo sem rítalín og elvanse. Þessi lyf geta hækkað líkamshita fólks og aukið hættu á hitaóþoli. Þau geta eins dregið eins úr blóðflæði til húðarinnar.

Önnur lyf

Ýmis geðlyf geta valdið hitaóþoli. Svo sem lyfið Quetiapine sem er sefandi og er notað í lægri skömmtum til að hjálpa fólki að festa svefn og í hærri skömmtun til að meðhöndla geðklofa.

Eins geta sum sýklalyf valdið hitaóþoli, lyf til að lækka kólesteról í blóði, lyf sem gefin eru við sykursýki og áfram mætti lengi telja.

Það er því ekki úr vegi að kynna sér betur þau lyf sem fólk tekur inn í hitanum til að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Fólki er ekki ráðlagt að hætta að taka lyfin sín bara út af sólinni. En ef lyfið er til þess fallið að draga úr hitaþoli er ágætt að ráðfæra sig við lækni áður en haldið er í aðstæður þar sem hiti er mikill. Fólk gæti að því að drekka nóg vökva og kæla sig reglulega niður. Jafnvel sé skynsamlegt að halda sig inni þegar sólin er hæst á lofti, en slíkar ráðleggingar eiga heldur við um frí erlendis heldur en sumarhitann hér á landi.

Þeir sem eru farnir að glíma við óþægileg hitaköst geta haft í huga að útvíð og þunn föt geta gert kraftaverk og ekki úr vegi að fjárfesta í góðri viftu.

Eins er gott að kanna hvort lyf geti gert fólk viðkvæmara fyrir geislum sólar, en ef svo er þarf að maka á sig sólarvör og fjárfesta í góðri derhúfu eða sólarhatt.

Uppfært föstudaginn 5. maí:

Bítið á Bylgjunni ræddi við lektor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og formann Lyfjafræðingafélags Íslands um greinina föstudaginn 5. maí. Ranglega er því haldið fram að hér sé fólk hvatt til að hætta að taka lyfin sín, en eins og kemur í tvígang fram hér að ofan er fólki ráðið gegn því að hætta að taka lyf bara út af mögulegu hitaóþoli, heldur er bent á að gott sé að hafa þetta í huga og jafnvel forðast mesta hitann yfir daginn og huga að vatnsdrykkju. Fólki var þó ráðlagt að ræða áhrif lyfja á hitaþol við lækna áður en haldið er í aðstæður þar sem umhverfishiti er mikill. Innslagið í Bítinu er eins birt undir þeim formerkjum að hiti hafi áhrif á lyfin sem fólk tekur, en hér er fjallað um möguleg áhrif hita á fólk sem tekur inn tiltekin lyf að staðaldri. Rétt er þó að benda á að vissulega getur hiti haft áhrif á lyf, en það er önnur umræða. Svo eru það lyf sem geta gert okkur viðkvæmari fyrir geislum sólar, en það féll eins utan efnistaka að þessu sinni. Fyrir áhugasama má hér finna upptalningu lyfja sem geta gert fólk viðkvæmari fyrir geislum sólar, svo sem sýklalyf, getnaðarvarnir, lyf við unglingabólum og fleiri.

Þar sem athugasemd var gerð við að ekki sé getið heimilda hefur fréttin verið uppfærð til að bæta úr því. Eins hefur verið bætt við að það séu helst eldri einstaklingar sem þurfa að huga að þessari aukaverkun en rétt er að taka fram að yngra fólk getur eftir sem áður verið viðkvæmara fyrir vegna lyfjatöku.

Rétt er að taka fram að þessi grein er ekki úr lausu lofti gripin. Þetta samspil lyfja og hita hefur lengi verið þekkt og undanfarin ár hafa verið sett spurningar um það hvort að heilbrigðisstarfsmenn þurfi að gæta betur að því að upplýsa skjólstæðinga sína um þessa aukaverkun, sem og um áhrif sem mikill hiti hefur á líkamann almennt. Prófessor við Harvard háskóla sagði árið 2020 að hugarfarsbreytingar sé þörf innan heilbrigðismála. Fólk sé varað við algengum aukaverkunum en ekki við áhrifum lyfja á getu líkamans til að bregðast við umhverfishita. „Ef ég væri fiskari sem þætti gaman að vera úti á bát á sumrin þá vildi ég gjarnan fá að vita hvort lyfið sem ég tek hafi áhrif á þetta áhugamál“.

Hér má finna lista yfir heimildir en rétt að taka fram að hann er með engu móti tæmandi:

AARP – Samtök eftirlaunaþega í Bandaríkjunum
Yale Climate Connections  þar sem vísað er í grein sem birtist í læknaritinu The Lancet
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ráðleggur þeim sem taka lyf að staðaldri að ráðfæra sig við lækni um áhrif þeirra á líkamshita og vökvajafnvægi, og eins að spyrja hvort aðlaga þurfi lyfjagjöf eða skömmtun að hækkandi hita.
The Conversation
Jefferson Health
Health Partners
Health.com
Ritrýnd grein frá 2015
European Psychiatry, ritrýnd rannsókn frá 2007 á sjúklingum sem höfðu leitað á bráðadeild út af ofhitnun
Scientific American
CBC News, 2023 þar sem læknar vara fólk sem tekur lyf að staðaldri við hitanum
Daily Mail 2023
NPR 2022
NPR, 2023
BBC, 2022
Medical News Today
15 News frá 2016 þar sem læknar hvetja fólk á tilteknum lyfjum til að fara varlega í hitanum
Inside Climate News, 2019, þar sem fjallað er um að sjúklingar séu alltof sjaldan varaðir við að lyf geri þá viðkvæmari fyrir hita. Þar er fjallað um mál ungs drengs með einhverfu sem var á fjölda lyfja sem komu í veg fyrir að hann gæti svitnað. Hann endaði á sjúkrahúsi með ofhitnun.
CDC tekur fram á vef sínum að tiltekin lyf, einkum geðlyf og vatnslosandi lyf auki líkur á hitatengdum veikindum. CDC beinir eins leiðbeiningum til lækna um að huga að auknu hitaóþoli sem lyf geta valdið og ræða það við sjúklinga sína.
Opinber vefur New Orleans
Psychology Today þar sem fjallað er um að sjúklingar sem taka geðlyf séu gjarnan ekki meðvitaðir um að þeir þurfi að gæta sín í hita.
MedlinePlus upplýsingaveita á vegum bandarískra stjórnvalda bendir á langan lista lyfja sem geta valdið hitaóþoli
Hér er upplýsingabæklingur frá Geðheilbrigðis- og fíkniþjónustu New Jersey um þá áhættu sem fylgir sól og hita fyrir einstaklinga sem taka geðlyf og sambærilegur frá Ohio.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Líf hjónanna breyttist mjög þegar dóttir þeirra gekk í hjónaband með Assad

Líf hjónanna breyttist mjög þegar dóttir þeirra gekk í hjónaband með Assad
Pressan
Fyrir 2 dögum

Skilur ekki gleðina yfir morðinu sem allir eru að tala um

Skilur ekki gleðina yfir morðinu sem allir eru að tala um
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sakamál: Var framið réttarmorð á Rebeccu eða er hún besti lygari í heimi?

Sakamál: Var framið réttarmorð á Rebeccu eða er hún besti lygari í heimi?
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þessu máttu ekki sleppa ef þú vilt lifa lengi

Þessu máttu ekki sleppa ef þú vilt lifa lengi
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ertu í vandræðum með silfurskottur? Svona er hægt að losna við þær

Ertu í vandræðum með silfurskottur? Svona er hægt að losna við þær
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þetta er besti morgunmaturinn til að tryggja þér orku allan daginn

Þetta er besti morgunmaturinn til að tryggja þér orku allan daginn