Viðskiptavinurinn, kona að nafni Carrie Clark, hafði keypt fimm pör af skóm en ekki litist nógu vel á þá. Ákvað hún að skila sendingunni og senda hana til baka. Fór hún frá heimili hennar í Utah og alla leið til Kaliforníu og tók ferðalagið nokkra daga.
Um svipað leyti og sendingin fór af stað, þann 10. apríl síðastliðinn, hvarf heimiliskötturinn Galena sporlaust að því er virtist.
Carrie og eiginmaður hennar leituðu að Galenu næstu daga en hún fannst hvergi. „En svo fékk ég símtal sem breytti öllu,“ segir Carrie við BBC en það var frá dýralækni í Kaliforníu sem sagðist vera með Galenu hjá sér. Hafði læknirinn skannað örmerki á henni.
„Ég hélt fyrst að þetta væri hrekkur,“ segir Carrie.
Starfsmaður Amazon, Brandy, sem starfar í deild þar sem tekið er á móti skilasendingum opnaði pakkann og kom Galenu í hendur dýralæknis í kjölfarið. Virðist hún hafa laumað sér ofan í kassann áður en honum var lokað og hann sendur til Kaliforníu.
Kettir eru nokkuð harðir af sér og virðist Galena vera við ágæta heilsu þrátt fyrir þetta langa ferðalag. Hún var þyrst og svöng en að öðru leyti ágætlega hress.
Carrie og eiginmaður hennar flugu til Los Angeles daginn eftir að hafa fengið símtalið frá dýralækninum og sóttu Galenu. Er hún nú komin heim til Utah eftir þessa miklu svaðilför.