Slökkviliðsmenn fóru inn í herbergið eftir að hafa slökkt eldinn utan frá. Herbergið var fullt af reyk og dimmt. Í öðru rúminu lá ung stúdína, hin 19 ára Katie Autry. Hún var á lífi en mjög illa farin. Hún var strax flutt á Greenwood sjúkrahúsið.
Þegar læknar tóku á móti Katie sáu þeir strax, sér til mikillar undrunar, að eldurinn var ekki það eina sem hafði skaðað Katie. Hún hafði verið stungin fjórum sinnum með hníf í hálsinn, það voru sár á höndum hennar eftir að hún hafði reynt að verjast árásinni, hún hafði verið slegin í andlitið og snúra af krullujárni var vafin utan um háls hennar.
Brunasárin voru aðallega frá lærum og upp að brjósti. Katie var lögð í dá og lögreglan hóf rannsókn á málinu. Í fyrstu taldi hún að Katie hefði verið nauðgað og að ofbeldismaðurinn hefði ætlað að brenna Katie til að eyða sönnunargögnum.
Tveir dularfullir menn í símanum
Katie var í dái og því ekki hægt að ræða við hana. Lögreglan byrjaði því á að yfirheyra herbergisfélaga hennar, Danica Jackson, sem var að heiman þegar eldurinn kom upp. Hún sagðist hafa farið í partí með Katie sem hafi verið ansi drukkin og hafi rifist við unnusta sinn, Maurice Perkins. Áður en Katie fór heim sló hún til Maurice. Danica hjálpaði henni við að fá far heim um klukkan hálf tvö.
Klukkutíma síðar hringdi hún í Katie til að kanna hvort hún hefði komist heim. Katie sagðist vera heima en væri ekki alein. Það var einhver annar í herberginu. „Ég veit ekki hver þetta er, ég vil bara sofa,“ sagði Katie. Danica bað um að fá að tala við aðilann. Þetta reyndist vera karlmaður og sagðist hann hafa ekið Katie heim.
Þetta róaði Danica og hún bað manninn um að sjá til þess að Katie sofnaði í læstri hliðarlegu ef til þess kæmi að hún kastaði upp um nóttina. Síðan heyrði hún aðra karlmannsrödd í bakgrunninum.
Hún vissi ekki hvað maðurinn, sem ók Katie heim, hét en hún gat lýst honum og bílnum hans.
Næturvörðurinn á stúdentagörðunum mundi að Katie hafði komið heim um klukkan tvö. Hún kom alein og var í góðu skapi.
Hinn farþeginn
Þegar lögreglan ræddi við Maurice staðfesti hann að Katie hefði slegið hann þegar þau rifust. Hann sagðist hafa farið heim til vina sinna eftir partíið til að spila tölvuleiki og horfa á sjónvarpið. Vinirnir staðfestu þetta og lögreglan afskrifaði Maurice því sem hugsanlegan árásarmann.
Þegar rætt var við fleiri partígesti kom í ljós að sá sem ók henni heim var Ryan Payne. Lögreglan ræddi við hann og sagðist hann hafa unnið þetta kvöld við að aka drukknum stúdentum heim. Hann sagðist hafa sett Katie út fyrir framan stúdentagarðinn hennar og hafi hann síðan haldið för sinni áfram. Hann sagðist síðan hafa eytt nóttinni hjá vinum og staðfestu þeir það.
En Ryan skýrði frá einu einn sem vakti áhuga lögreglumannanna. Það hafði verið annar farþegi í bílnum, hinn 21 árs Stephen Soules. Hann hafði farið úr bílnum skömmu eftir að Katie fór úr honum. Hann bað Ryan um að hleypa sér út og það síðasta sem Ryan sá til hans var þegar hann gekk í átt að húsinu sem Katie bjó í.
Þegar Stephen var yfirheyrður sagðist hann ekki muna mikið eftir nóttinni því hann hafi verið dauðadrukkinn. Hann mundi eftir Katie úr bílnum en sagðist ekki hafa farið heim til hennar þá um nóttina. Hann lét lögreglunni í té nafn og símanúmer vinar síns sem hann sagðist hafa gist hjá. Vinurinn staðfesti að Stephen hefði verið hjá honum alla nóttina.
Að morgni fimmtudagsins 8. maí lést Katie. Hún vaknaði aldrei upp af dáinu og gat því ekki sagt neitt um hvað gerðist nóttina skelfilegu.
Andlát hennar hafði mikil áhrif á lögreglumennina, sem unnu við rannsókn málsins, og þeir fylltust vonleysi. Allir þeir, sem þóttu koma til greina sem hugsanlegir morðingjar, voru með fjarvistarsönnun og þeir óttuðust að málið myndi aldrei leysast því Katie var látin.
Velheppnuð blekking
En upp úr þurru hringdi vinur Stephen, sem hafði veitt honum fjarvistarsönnun, og sagðist hafa frétt að Katie væri látin. Hann sagðist því telja það skyldu sína að segja lögreglunni að Stephen hafi ekki verið hjá honum þessa nótt.
Stephen var kallaður til yfirheyrslu á nýjan leik. Áður en hann kom undirbjó lögreglan blekkingaraðgerð. Tómar myndbandsspólur voru lagðar á skrifborðið í yfirheyrsluherberginu og á þær var skrifað „Myndir úr eftirlitsmyndavélum í Poland Hall“. Spólunum var komið þannig fyrir að Stephen gat ekki annað en séð þær.
Á meðan Stephen var yfirheyrður fór ekki framhjá lögreglumönnunum að hann gaut augunum í sífellu á spólurnar. Það var greinilegt að hann trúði því að eftirlitsmyndavélar væru í húsinu, því framburður hans var annar en í fyrri yfirheyrslunni.
Núna sagðist hann hafa farið heim til Katie eftir að Ryan setti hann út. Hann sagði að þau hefðu stundað kynlíf, með samþykki Katie. Þegar hún var sofnuð yfirgaf hann bygginguna og fór heim. Hann sagðist ekki vita neitt um eldsvoðann.
Lögreglumennirnir trúðu honum ekki og beittu hann meiri þrýstingi.
Þeir reyndu að sýna honum myndir af Katie en hann neitaði að líta á þær. Síðan brotnaði hann grátandi saman og breytti sögu sinni aftur. Hann sagði að vinur sinn, hinn 21 árs Lucas Goodrum, hefðir gengið inn á þau þegar þau voru að stunda kynlíf. Hann sagði að Lucas hafi neytt sig til að ganga í skrokk á Katie og bera eld að henni.
Lögreglan hafði ekki gleymt að Danica hafði heyrt tvær karlmannsraddir þegar hún hringdi í Katie.
Lucas var kallaður til yfirheyrslu og létu lögreglumennirnir tómu myndbandsspólurnar vera áfram á skrifborðinu. Eftir að búið var að kynna Lucas ástæðuna fyrir að hann hefði verið kallaður til yfirheyrslu, sagðist hann hafa verið í partíinu og að hann hefði hitt Katie þar en hann þvertók fyrir að hafa tekið þátt í morðinu á henni.
Hann benti síðan á myndbandsspólurnar og sagði: „Settu þær í. Þú sérð mig ekki á þeim. Taktu fingraförin mín. Þú finnur þau ekki þarna.“ Þess utan veitti faðir hans honum fjarvistarsönnun.
En lögreglan trúði honum ekki og voru bæði hann og Stephen ákærðir fyrir morðið.
Réttarhöldin
Það tók langan tíma að rannsaka DNA-sýnin sem fundust á líkama Katie. Það var mikið af DNA úr Stephen á henni en ekkert úr Lucas.
Stephen slapp við réttarhöld því hann gerði samning við saksóknara um að játa nauðgun og morð gegn því að komast hjá dauðadómi. Hann var dæmdur í ævilangt fangelsi án möguleika á reynslulausn.
Lucas neitaði sök og var dreginn fyrir dóm. Aðalvitnið gegn honum var Stephen.
Eftir að öll sönnunargögnin höfðu verið lögð fram og saksóknari og verjendur höfðu lokið málflutningi sínum, fóru kviðdómendur afsíðis til að ráða ráðum sínum. Það tók þá þrjár klukkustundir að komast að niðurstöðu.
Lucas var sýknaður af öllum ákæruatriðum.
Fjölskylda Katie telur að hann hafi verið viðriðinn morðið.
Hægt er að sjá heimildarmyndina Death in the Dorms á Disney+ en í henni er fjallað um málið.