Sjá einnig: Fjölskylda Bondi-morðingjans sendir stuðningskveðju til lögreglukonunnar sem skaut son þeirra til bana
Árásin í morgun átti sér stað í The Good Shepherd-kirkjunni og var biskup kirkjunnar, Mar Mari Emmanuel, stunginn nokkrum sinnum. Emmanuel var að predika í messu þegar svartklæddur hnífamaðurinn réðst að honum og nokkrum gestum kirkjunnar.
Messan var send út í beinni útsendingu á netinu og sást árásin greinilega í útsendingunni eins og meðfylgjandi skjáskot ber með sér.
Ástralska lögreglan segir að áverkarnir sem Emmanuel hlaut í morgun séu ekki lífshættulegir. Tveir aðrir gestir kirkjunnar eru sagðir hafa slasast í árásinni. Hnífamaðurinn var yfirbugaður og er hann nú í haldi lögreglu.
Í umfjöllun Mail Online kemur fram að Mari Emmanuel og kirkja hans eigi sér marga fylgjendur. Þannig fylgja 200 þúsund manns YouTube-síðu kirkjunnar og voru margir að horfa á þegar árásin var framin.
Emmanuel komst í fréttirnar þegar heimsfaraldur Covid-19 reið yfir. Gagnrýndi hann sóttvarnarráðstafanir harðlega og líkti þeim við þrælahald og þá kvaðst hann hafa litla trú á að gagnsemi bóluefna gegn veirunni.