The Guardian skýrir frá þessu og segir að árásin á fimmtudaginn hafi átt sér stað í Viry-Chatillon, sem er um 20 km sunnan við París. Hafi hópur fólks ráðist á piltinn þegar hann yfirgaf skólann sinn seinnipart dags. Lögreglan vinnur að rannsókn málsins en enginn hefur verið handtekinn vegna þess enn sem komið er.
Emmanuel Macron, forseti, heimsótti grunnskóla í París á föstudaginn og sagði þá að Frakkar glími við mörg ofbeldisverk unglinga og jafnvel meðal barna. Það verði að verja skólana gegn þessu, þeir verði að vera athvarf fyrir börn, fjölskyldur þeirra og kennara.