Hún skýrði frá þessu í samtali við Berlingske og benti á að félögum og samtökum sé frjálst að starfa í Danmörku og að það sé á valdi hvers sveitarfélags að ákveða hvort ákveðin félög og samtök fái að nota þá aðstöðu og mannvirki sem sveitarfélögin eiga.
„Það eru sveitarfélögin sem ákveða hvort félög og samtök megi nota opinber mannvirki. Ef hann vill hafa það öðruvísi, verður hann að fá þingið til að setja lög um það,“ sagði hún.
Ummæli hennar falla í kjölfar fyrirspurnar frá útlendinga- og aðlögunarráðuneytinu til sveitarfélaga landsins um hversu mikið sé um að boðið sé upp á kynjaskipta sundkennslu og/eða sundtíma í opinberum sundlaugum.
Fyrirspurnin var send út í kjölfar tillögu frá í maí á síðasta ári um að banna að boðið sé upp á kynjaskipta sundkennslu og sundtíma.
Af 98 sveitarfélögum hafa 92 svarað fyrirspurninni og er niðurstaðan að í 12 þeirra er boðið upp á kynjaskipta sundkennslu og sundtíma.
Ráðherrann hefur látið hafa eftir sér að það sé „ódanskt“ að bjóða upp á kynjaskipta tíma í sundlaugum landsins og að þetta sé „miðausturlensk“ menning sem sé að skjóta rótum í dönsku samfélagi.