Þrír slösuðust á mánudag eftir að eins hreyfils flugvél hrapaði í Indiana í Bandaríkjunum.
Auk flugmannsins slösuðust tveir vegfarandur, hjón sem voru á göngu á Cardinal Greenway, stíg við hlið flugvallarins. Vélin var í aðflugi að svæðisflugvelli Delaware County í Muncie skömmu fyrir klukkan 10:30 að staðartíma.
„Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ sagði lögreglustjórinn Jeff Stanley. „Ímyndaðu þér að þú sért úti að hreyfa þig og svo verður þú fyrir flugvél.“
Óljóst er hvort parið varð fyrir flugvélinni eða brakinu sem féll þegar vélin hrapaði á tré. Flugmaðurinn var fastur inni í vélinni þar til fyrstu viðbragðsaðilum tókst að losa hann. Flugmaðurinn hafði ekki gefið nein merki um að hann væri í vandræðum staddur. Eldur kom upp í vélinni þegar hún brotlenti, en byggingarstarfsmönnum á flugvellinum tókst að slökkva hann. Alríkisflugmálayfirvöld sem og embætti sýslumanns rannsaka nú slysið.