Líf konu frá Kaliforníu tók á sig skuggalegan blæ þegar hún fór að grafast fyrir um fortíð stjúpafa síns heitins. Sierra Barter telur líklegt að afi hennar hafi verið raðmorðingi í hjáverkum.
Þegar hún byrjaði rannsókn sína var hún meðvituð um að stjúpafi hennar hefði í lifandi lífi verið skrímsli. Hann hafði beitt margar konur í fjölskyldu hennar ítrekuðu ofbeldi.
Afinn, Jim Mordecai, starfaði sem kennari, ruðningsmaður og var virtur í samfélagi sínu í lifandi lífi en á bak við tjöldin sýndi hann sitt rétta andlit.
En Sierra og fjölskyldu hennar grunaði ekki að ofbeldishegðun Mordecai gæti hafa beinst að fólki utan fjölskyldunnar og það með hrottalegri hætti. Ekki fyrr en Sierra fann box meðal eigna afa síns þar sem hann hafði safnað saman skartgripum mismunandi kvenna.
Þegar móðir Sierra leitaði á netinu að upplýsingum um raðmorðingja sem hafði verið virkur á heimaslóðum þeirra í Santa Rosa, fengu þær báðar áfall.
„Hún fríkaði út yfir þessu. Og ég hugsaði – Þetta er of mikið. Ég get ekki hugað um þetta núna. En svo, kannski nokkrum dögum síðar, fór ég og virkilega skoðaði þetta og ég var slegin. Það er ekki góð tilfinning að sjá fyrir sér aðila sem þú varðir tíma með og átt myndir af þér með, að viðkomandi hafi getað framið svona glæpi. Það er mjög óþægileg tilfinning.“
Sierra fór að heyra slæmar sögur af afa sínum skömmu eftir að hann lést árið 2008. Þá fóru konurnar í fjölskyldunni að opna sig um ofbeldið.
„Að setjast niður með ömmu var erfitt. Ég hef alltaf verið náinn henni. Hún er svona mjólk og smáköku amma… og það var erfitt að heyra svona hluti um manneskju sem ég elskaði svona mikið. En það var líka heiður að fá að kynnast henni sem konu og skilja hversu sterk hún var og hvað hún hafði gengið í gegnum.
Það hafi mikil áhrif á mig að heyra frásagnir móðursystra minna. Við erum þakklátar að vera laus við Jim í dag. Það var erfitt að heyra hvernig þessar konur, sem ég hafði hlegið með, sem klæddu mig upp eins og dúkku og allt þetta, voru að þjást á bak við luktar dyr. Það var hrollvekjandi að heyra hvað faðir þeirra svipti þær.“
Í kjölfarið tengdi Sierra afa sinn við morð sem kallast puttaferðalanga morðin í Santa Rosa. Um er að ræða minnst sjö óleyst morðmál frá árunum 1972 og 1973. Um tíma var talið að þar væru þekktir morðingjar á ferð á borð við Ted Bundy eða Stjörnumerkjamorðingjann.
Fórnarlömbin voru konur og höfðu verið bundnar, en Mordecai hafði ítrekað hótað að binda dætur sínar með þessum hætti og henda þeim ofan í skurð. Hann hafi eins hótað að skera börnin sín á háls.
Sierra hefur afhent lögreglu möguleg DNA sönnunargögn og er verið að rannsaka þau.
Rannsókn Sierra er hluti af heimildarþáttum sem heita Sannleikurinn um Jim. Þar er því jafnframt velt fram að Mordecai hafi í raun verið sjálfur stjörnumerkjamorðinginn.