Maegan var rekin úr starfi eftir að upp komst að hún hafði átt í kynferðislegu sambandi við sex kollega sína á lögreglustöðinni í La Vergne. Átti Maegan að hafa veitt tveimur lögreglumönnum munnmök á lögreglustöðinni, farið úr að ofan í heitum potti í gleðskap lögreglumanna og farið í trekant með samstarfsmanni sínum og eiginkonu hans svo eitthvað sé nefnt.
Maegan fór í mál við yfirvöld í La Vergne eftir að málið spurðist út á síðasta ári. Sagði hún að samstarfsmenn hennar hafi nýtt sér stöðu hennar þar sem hún var ein fárra kvenna á lögreglustöðinni og þá hafi hjónaband hennar verið í rúst á þessum tíma.
„Á vinnustað þar sem Maegan leitaði að fyrirmyndum fann hún rándýr,“ sagði meðal annars í stefnu lögmanns hennar gegn borginni. Lögreglumenn hafi meira að segja rætt sín á milli um hvernig væri best að „nota“ hana.
Eitthvað virðist hafa verið til í þessu því borgin hefur nú fallist á það að greiða henni 500 þúsund dollara, tæpar 70 milljónir króna, gegn því að hún falli frá frekari málaferlum.