Dagbladet segir að kæra hafi verið lögð fram hjá lögreglunni á hendur eigendum rútunnar en hún gengur út á að myndefnið sé klámfengið.
Það kostaði margar milljónir að standsetja rútuna og skreyta en að innan á hún að líkjast bar og að utan er hún skreytt með mörgum myndum, til dæmis af afgreiðslukonu á krá, tveimur boxurum og svo myndinni sem allt uppnámið er í kringum: Karl og kona sem ekki er annað að sjá en séu að hafa samfarir.
Norsku kvenréttindasamtökin Ottar lögðu kæruna fram hjá lögreglunni og segjast „bregðast harkalega við því að einhver aki um með kvenfjandsamlegan boðskap“ eins og segir í kærunni.
Rútan hefur fengið nafnið Pubben og er í eigu 20 ungra manna í Bryne framhaldsskólanum. Þeir sjá ekkert athugavert við myndskreytinguna. „Við erum mjög sáttir við skreytinguna á rútunni utanverðri og sjáum ekki eftir þeirri ákvörðun sem við tókum,“ sögðu þeir í skriflegu svari til Dagbladet.