Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem var nýlega birt í vísindaritinu Journal of Threatened Taxa. Í henni skýra rannsóknarhöfundarnir frá fimm tilfellum jarðsetninga á kálfum í Vestur-Bengal á Indlandi.
Kálfarnir voru allir eins árs eða yngri þegar þeir drápust. Fílarnir fluttu þá á fyrirframgerða jarðsetningarstaði á teræktunarsvæðum. Þar var þeim komið fyrir í holum, fæturnir látnir vísa upp á við, og jarðvegi mokað yfir.
Vísindamenn höfðu áður séð að afrískir fílar hafa ákveðna útfararsiði. Hjarðirnar hylja skrokka látinna ættingja og félaga með trjágreinum og laufum.
Nýja rannsóknin er sú fyrsta sem snýr að asískum fílum og um leið fyrsta þekkta dæmið um að fílar jarðsetji aðra fíla í holum og að þeir láti skrokk þeirra snúa á ákveðinn hátt.
Live Science hefur eftir Parveen Kaswan, og Akashdeep Roy, sem unnu að rannsókninni, að jarðsetningar kálfanna séu mjög vel skipulagðar og að fílarnir viti vel hvað þeir séu að gera.
Krufning á hræjum kálfanna leiddi í ljós að þeir drápust allir af náttúrulegum orsökum, öndunarfærasýkingum eða öðrum sýkingum.