Talsvert var fjallað um málið í breskum fjölmiðlum í fyrra en Sheree var dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir að pynta eiginmann sinn. Ofbeldið hafði staðið yfir árum saman en Sheree neitaði ávallt sök – uns hún gat það ekki lengur vegna óyggjandi sannanna.
Richard hafði nefnilega komið fyrir eftirlitsmyndavél á heimili þeirra í Bubwith á Englandi sem sýndi svart á hvítu það ofbeldi sem hann varð fyrir. Í þættinum, My Wife, My Abuser: The Secret Footage, eru einnig sýndar upptökur úr yfirheyrslum hjá lögreglu þar sem Sheree sagði að eiginmaðurinn væri sá sem beitti ofbeldinu.
Sláandi upplýsingar koma fram í þættinum, meðal annars kúkaði Sheree einu sinni á gólfið og neyddi eiginmanninn til að þrífa upp eftir hana. Þá barði hún hann í höfuðið með vínflösku með þeim afleiðingum að hann hlaut varanlegan skaða af. Þetta gekk á lengi og beitti hún bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi þar sem hún barði frá sér og beit.
Í umfjöllun Mail Online kemur fram að Sherre hafi reynt ýmislegt til að koma í veg fyrir að þátturinn færi í loftið. Á sama tíma vildi Richard gjarnan að hann yrði sýndur til að varpa ljósi á að karlar geta líka orðið fyrir heimilisofbeldi þar sem konur eru gerendur.
„Sýningu myndarinnar hefur verið frestað í sex mánuði vegna lagalegra úrlausnarefna en ég vona að henni verði vel tekið,“ segir hann við Mail Online.
Richard og Sheree kynntust á næturklúbbi árið 2000 og urðu fljótt ástfangin. Þau gengu í hjónaband árið 2009 og eignuðust sitt fyrsta barn árið 2015. Ekki löngu eftir að þau byrjuðu saman fór að bera á ofbeldisfullri hegðun Sheree og ákvað Richard að nota öryggismyndavél, sem hann hafði upphaflega keypt til að geta fylgst með dóttur, til að ná ofbeldinu á myndband.
Sheree var handtekin árið 2021 eftir að áhyggjufullur starfsmaður velferðarsviðs í Bubwith hafði samband við lögreglu. Hún var færð í opið úrræði eftir aðeins sex mánaða afplánun og það er eitthvað sem Richard er ósáttur við. „Dómarinn í málinu lýsti því að þetta væri eitt versta heimilisofbeldismál sem hann hefði séð. Í ljósi þess skil ég ekki hvernig á því stendur að hún sé komin í opið úrræði strax.“