Sky News segir að skipulögð glæpagengi beini nú sjónum sínum í miklum mæli að ólífuolíu sem er oft kölluð „fljótandi gull“. Stela gengin henni og selja síðan.
Nú er svo komið að aðeins áfengi er meira stolið úr spænskum stórmörkuðum. Í þriðja sæti er Iberico skinka.
Einn lítri af hágæða ólífuolíu kostaði tæpar 5 evrur fyrir fjórum árum. Nú kostar hann um 14 evrur.
Spánn er stærsta framleiðsluland ólífuolíu í heiminum og fjölskyldur kaupa hana yfirleitt í miklu magni til að nota við matseld.
Til að bregðast við þjófnaði á henni hafa stórmarkaðir gripið til þess ráðs að festa fimm lítra ólífuolíuflöskur saman með keðjum og læsa þeim. Í sumum verslunum er búið að setja þjófavörn á eins lítra flöskur. En þjófar nota oft sterka segla til að losa þessar þjófavarnir af flöskunum.