Michelle Francl, prófessor í efnafræði við Bryn Mawr háskólann í Pennsylvania, gerði rannsóknina. Í henni kemst hún að þeirri niðurstöðu að til að gera hin fullkomna tebolla þurfi að setja örlítið salt og smá sítrónu út í teið.
Sky News skýrir frá þessu og segir að hún hafi einnig komið með önnur ráð sem eru ekki eins umdeild. Þar á meðal er að nota lága og breiða bolla til að halda teinu heitu lengur.
Í samtali við The Guardian sagði hún að rétt sé að hita bæði bollann og mjólkina og að mjólkinni skuli hellt í bollann á eftir teinu. Hún sagði einnig að best sé að nota laus teblöð en ef fólk noti tepoka skuli það velja stóra því það geri að verkum að teið geti hreyft sig meira í vatninu.
En bandaríska sendiráðið tók þessar ráðleggingar hennar um að bæta salti út í teið illa og skrifaði í færslu á samfélagsmiðlinum X: „Við getum ekki setið þögul hjá þegar svona svívirðileg hugmynd ógnar grunnstoðum hins sérstaka sambands ríkjanna. Te er lífsvökvi góðra samskipta, heilög tengsl sem sameina þjóðir okkar.“
Síðan heldur færslan áfram en í lok hennar koma Bandaríkjamennirnir með svolítið sem fer væntanlega illa í tedrekkandi Breta og ekki víst að allir sjái húmorinn í þessu: „Af þessum sökum viljum við fullvissa hið góða fólk í Bretlandi um að það er ekki opinber stefna Bandaríkjanna að taka undir þetta álit um að bæta eigi salti í þjóðardrykk Breta. Þetta verður aldrei opinber stefna Bandaríkjanna. Sameinumst í traustri samstöðu okkar og sýnum heiminum að þegar það kemur að tei, þá stöndum við sameinuð. Bandaríska sendiráðið mun halda áfram að gera te á réttan hátt, með því að gera það í örbylgjuofni.“
Skrifstofa bresku ríkisstjórnarinnar blandaði sér þá í málið og skrifaði á X: „Við verðum að vera algjörlega ósammál“ yfirlýsingu bandaríska sendiráðsins. „Það er bara hægt að búa til te með því að nota ketil.“