Parker Solar Probe hefur nú þegar farið nær sólinni en nokkuð annað geimfar. En síðar á árinu mun það fara enn nær henni og slá eigið hraðamet.
Það fór framhjá sólinni þann 28. desember síðastliðinn og var það átjánda framhjáflugið. Næst flýgur það framhjá henni á aðfangadag. Þá verður það í aðeins 6,1 milljón kílómetra fjarlægð frá því sem talið er vera yfirborð sólarinnar. Sólin er í raun gaskúla og því ekki með raunverulegt yfirborð. Geimfarið mun lenda í 1.400 gráðu hita. Þegar þarna kemur við sögu verður hraði geimfarsins um 700.000 km/klst en það er um 300 faldur hraði F-16 orustuþotu.
BBC News hefur eftir Nour Raouafi, stjarneðlisfræðingi hjá Johns Hopkins háskólanum, að í raun og veru sé næstum verið að lenda á stjörnu: „Þetta verður gríðarleg afrek fyrir mannkynið. Þetta jafnast á við tungllendinguna 1969.“
Geimfarinu var skotið á loft frá Flórída í ágúst 2018. Í september á síðasta ári fór það næst sólinni, enn sem komið er, en þá var það í 7,26 milljón kílómetra fjarlægð og var hraði þess þá 636.000 km/klst.
Ekkert manngert farartæki hefur farið hraðar en Parker.
En þrátt fyrir að geimfarið slái hraðamet og nálægðarmet við sólina, þá er aðalmarkmiðið með því að auka vitneskju okkar um sólina. Ein af þeim ráðgátum sem vísindamenn vilja gjarnan fá svar við, er af hverju ytra lag lofthjúps sólarinnar er um 200 sinnum heitara en það sem er fyrir neðan.