Það var í árslok 2008 sem bandarískum og ísraelskum leyniþjónustustofnunum tókst að sleppa tölvuveirunni Stuxnet lausri í neðanjarðar kjarnorkustöð Írana, Natanz, þar sem veiran lamaði um fimmta hverja skilvindu, sem eru notaðar til að auðga úran sem er hægt að nota í kjarnorkusprengjur. Íranar áttu þá um 5.000 slíkar vindur.
Fram að þessu hefur það verið ráðgáta hvernig það tókst að koma tölvuveirunni inn í Natanz því stöðin var algjörlega lokuð frá Internetinu, einmitt til að koma í veg fyrir tölvuárásir. Það lá því nokkuð ljóst fyrir að það þurfti að smygla Stuxnet niður í stöðina og lauma inn í tölvukerfi hennar.
Hollenska dagblaðið Volkskrant segir að Erik van Sabben, 36 ára hollenskur verkfræðingur, hafi laumað veirunni inn í Natanz. Hann lést í mótorhjólaslysi tveimur vikum síðar.
Þegar hann gerði þetta höfðu Ísraelsmenn árum saman gert allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að Íranar gætu smíðað kjarnorkusprengju. Í huga Ísraelsmanna lá beint við að senda sprengjuflugvélar af stað til að ráðast á Natanz en það gerðu Ísraelsmenn 1981 þegar þeir réðust á kjarnorkustöð í Írak og 2007 í Sýrlandi.
En það er ekki hlaupið að því að ráðast á Natanz, sem er sunnan við Teheran, því stöðin er niðurgrafin og af þeim sökum kom George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseti í veg fyrir slíka árás. Hann óttaðist að slík árás gæti kveikt allsherjarstríð í Miðausturlöndum og að bandarískar hersveitir í Írak gætu dregist inn í það. Þess utan myndu Íranar grafa sig enn lengra niður næst. Bush neitaði því að láta Ísraelsmönnum í té óhugnanlega öflugar sprengjur sem þurfti til að ráðast á stöðina.
En 2005 heimilaði hann þróun Stuxnet sem nýs vopns. Þegar Barack Obama tók við forsetaembættinu 2009 var enn meiri kraftur settur í verkefnið. Stuxnet var ætlað að eyðileggja skilvindur Írana innan frá, án þess að einu einasta skoti væri hleypt af.
Bandaríska leyniþjónustan CIA og ísraelska leyniþjónustan Mossad undirbjuggu aðgerðina árum saman og var hún leyndarstimpluð „ofurleynileg“.
New York Times hefur áður skýrt frá því að útsendarar Mossad hafi komist yfir teikningar af skilvindunum og hafi smíðað nokkrar sjálfir til að sjá hvernig væri best að eyðileggja þær með tölvuveiru.
Stuxnet var sérhönnuð til að gera leynilegar árásir á skilvindurnar. Á meðan hann át sig í gegnum tölvukerfin sendi hann skilaboð til stjórnrýmisins um allt væri í stakasta lagi.
En stærsta vandamálið var að koma Stuxnet inn í Natanz. Þar kom Erik van Sabben til sögunnar. Hann starfaði fyrir flutningafyrirtæki í Dubai og var kvæntur íranskri konu. Hann er sagður hafa verið óttalaus ævintýramaður sem var ekki hræddur við að taka áhættu.
Hann var ráðinn til starfa af leyniþjónustu hollenska hersins 2005. Hann þótti vænn kostur þar sem hann hafði góð sambönd eftir 10 ára búsetu í Dubai og reglulegar heimsóknir til Íran til tengdafjölskyldunnar. Þar leysti hann einnig oft ýmis verkefni.
Ári síðar heimsótti Michael Hayden, forstjóri CIA, hann og bað hann um að taka þátt í leynilegri aðgerð í Íran en Erik fékk engar upplýsingar um hvað áætlunin gekk út á.
Í árslok 2008 fór Erik til Teheran ásamt eiginkonu sinni í fjölskylduheimsókn. Hann ætlaði einnig að koma nýjum vatnsdælum fyrir í Natanz. Ekki er vitað hvort búið var að koma Stuxnet fyrir í þeim áður eða hvort Erik smyglaði veirunni inn á minnislykli.
Eftir að hafa komið veirunni fyrir virðist Erik hafa stressast mjög og vildi fara heim, eftir aðeins einn dag í Íran. Eiginkona hans og ættingjar hennar vissu ekkert um tvöfalt líf hans.
Erik lést tveimur vikum síðar í mótorhjólaslysi í Dubai. Hann datt á mótorhjóli sínu og hálsbrotnaði. Hollenska leyniþjónustan taldi kringumstæður dauðsfallsins grunsamlegar en vinir og ættingjar sögðu Volkskrant að engar sannanir hefðu fundist fyrir að hann hefði verið myrtur.