Þetta átti sér stað á gamlársdag við Jane Creek, sem er á norðaustan við Mackay í Queensland. Þar var hinn 45 ára Richard Brookman á veiðum en hann hefur stundað veiðar á þessum slóðum áratugum saman.
Hann var í litlum álbát og hafði verið við veiðar í um fjórar klukkustundir þegar hann sá krókódíl stefna á bátinn.
Í samtali við ABC sagðist hann hafa haft á tilfinningunni að „einhver væri að horfa á sig“. „Ég kveikti á ljósinu og kíkti upp ána og sá þá þessi augu stefna beint á mig,“ sagði hann.
Hann sagðist telja að krókódíllinn hafi verið um 4 metrar á lengd en bátur hans er 3 metrar á lengd.
Hann færði sig aftast í bátinn og ræsti mótorinn en þá stökk krókódíllinn skyndilega upp í loftið og lenti í bátnum.
„Krókódíllinn synti undir bátinn, sneri síðan við og stökk upp og inn í bátinn með kjaftinn galopinn,“ segir Jane Burns, hjá umhverfisdeild Queensland, í tilkynningu og bætir við að Richard hafi þá dregið ankerið upp og þá hafi krókódíllinn misst jafnvægið og dottið aftur út í vatnið og um leið beyglað handriði á bátnum.
Krókódíllinn var aðeins í bátnum í nokkrar sekúndur og Richard komst heill á húfi í land.
Það er sjaldgæft að krókódílar ráðist á fólk í Queensland en frá árslokum 1985 þar til í júlí 2023 var tilkynnt um 47 slíkar árásir í ríkinu. 13 manns létust í þeim.