En þú ættir kannski að hugsa þig tvisvar um áður en þú stöðvar hnerra. Þetta kemur fram í grein sem birtist á vef Videnskab.dk.
Fram kemur að hnerri sé viðbragð líkamans til að hreinsa öndunarfærin af óæskilegum aðskotahlutum á borð við mengun og frjókorn. Þetta eru ósjálfráð viðbrögð líkamans til að losna við þessa aðskotahluti.
Hnerri fer hratt yfir en talið er að hann geti farið allt frá 5 metrum á sekúndu (það eru 18 km/klst) upp í um 42 metra á sekúndu (það eru 150 km/klst).
Vísindamennirnir, sem skrifuðu greinina, segja að þegar horft er til þess hversu hratt hnerri fer þá sé það líklega ekki besta hugmynd í heimi að stöðva hann þegar hann er á leiðinni.
Þegar maður stöðvar hnerra þá gerir maður það með því að örva svokallaða trigeminus-taug. Þá kemur maður í veg fyrir að merki, um að maður þurfi að hnerra, berist frá nefinu til heilans og úr verði hnerri.
Með því að loka munninum eða nefinu þegar hnerrað er, þá eykst þrýstingurinn í öndunarfærunum 5 til 20 falt miðað við það sem er þegar hnerrað er óhindrað. Þegar þessi þrýstingur getur ekki sloppið út þá leitar hann annað og það getur skaðað augun, eyrun eða æðarnar.
Líkurnar á þessu eru litlar en til eru þekkt tilfelli um skaða á öndunarfærum og samfallið lunga. Af þessum sökum segja vísindamenn að líklega sé best að koma í veg fyrir hnerra viðbrögðin með því að fá meðferð við ofnæmi og ofnæmisvöldum.