Charles Lindbergh var einn þekktasti maður heims á þessum tíma enda hafði hann þremur árum áður flogið fyrstur yfir Atlantshafið, einn síns liðs, og var einn af brautryðjendum flugsögunnar.
Að kvöldi 1. mars 1932 var sonur hans og eiginkonu hans, Charles Lindbergh Jr., numinn á brott frá heimili þeirra í Hopewell í New Jersey. Herbergi drengsins var á annarri hæð hússins og fyrir utan húsið fannst stigi sem grunur lék á að hefði verið notaður. Þá fannst bréf á vettvangi þar sem krafist var lausnargjalds fyrir drenginn.
Sjá einnig: Lindbergh-barnið fannst myrt á hrottalegan hátt – Átti einn frægasta pabba í heimi
Í bréfinu kom fram að hjónin þyrftu að borga 50 þúsund dollara til að fá soninn aftur til sín á lífi en ekkert var getið um hvar eða hvenær ætti að afhenda þetta fé.
Lögregla rannsakaði málið en til að gera langa sögu stutta fannst lík piltsins sex vikum eftir að hann hvarf. Var það í skóglendi nokkrum kílómetrum frá heimili Lindbergh-fjölskyldunnar.
Charles Lindbergh tók sjálfur fullan þátt í rannsókn málsins og fór að lokum svo að tveimur árum eftir ránið var maður að nafni Bruno Haupthmann handtekinn. Hann neitaði staðastlega sök í málinu en var engu að síður tekinn af lífi í rafmagnsstólnum árið 1936.
Lise Pearlman skrifaði bók um málið árið 2020 og hún er alls ekki svo viss um að atburðarásin hafi verið eins og margir halda.
Í viðtali við San Francisco Chronicle fyrr í þessari viku segist Lise telja að Lindbergh sjálfur hafi fórnað syni sínum í þágu læknavísindanna. Hann hafi haft milligöngu um að félagi hans, læknirinn og Nóbelsverðlaunahafinn Alexis Carrel, fengi að gera tilraunir á Charles litla. Hann hefði sviðsett mannránið og komið drengnum í hendur Alexis.
Ýmsir myndu segja að hugmynd Lise sé fráleit og ekkert foreldri myndi gera slíkt en Lise er á öðru máli. Bent er á það Charles Lindbergh hafi verið vonsvikinn með líkamsbyggingu sonar síns; höfuð hans hafi verið óvenju stórt og líkaminn veikburða. Segist hún telja að skjaldkirtillinn hafi verið fjarlægður úr drengnum og slagæðarnar í hálsinum.
Í umfjöllun Mail Online er bent á að Charles Lindbergh hafi ekki verið allur þar sem hann var séður. Hann var sagður hallur undir nasisma, hann hélt ítrekað fram hjá konunni sinni og eignaðist börn með öðrum konum og var sagður hraðlyginn og stjórnsamur. Þá er hann sagður hafa verið heltekinn af allskonar þáttum læknavísindanna, til dæmis hvernig líffæri gætu starfað áfram utan líkamans.
„Mín kenning er sú að aðgerð hafi verið gerð á drengnum og hann dáið á skurðarborðinu. Ég held að Carrel hafi framkvæmt þessa aðgerð með leyfi Lindberghs og Lindbergh sjálfur verið viðstaddur,“ segir Lise í samtali við San Francisco Chronicle.
Hún vill að hulunni verði svipt af skjölum málsins og þau gætu sennilega rennt frekari stoðum undir þessa kenningu. Lise er ekki sú eina sem telur rétt að opna gögn málsins því lögmaðurinn Barry Scheck, sem kom að stofnun Innocence Project í Bandaríkjunum, segir að það væri vel þess virði að skoða hvort Bruno Haupthmann hafi ekki verið sendur saklaus í rafmagnsstólinn.