Ellefu ára drengur var fluttur með hraði á spítala í Englandi um jólin eftir að hafa verið bitinn af kranskönguló (Steatoda nobilis) sem hefur verið kölluð „hættulegasta könguló Bretlands.“
Daily Mail fjallar um hinn 11 ára gamla Matthew sem var bitinn í fótlegginn af köngulónni. Tveimur dögum síðar var hann kominn með háan hita, var illa áttaður og gat ekki staðið uppréttur. Í kjölfarið var hann fluttur á spítala þar sem hann er blessunarlega á batavegi.
Á vef Náttúrufræðistofnunnar Íslands er fjallað um kranskönguló sem tvisvar hefur fundist hér á landi. Annarsvegar í Garðabæ árið 2017 og hins vegar á Hvammstanga árið 2020. Tegundin, sem er náskyld svörtum ekkjum, er upprunin frá Kanaríeyjum og Madeira en hefur borist þaðan til vestur Evrópu. Hún er nú orðin landlæg á Bretlandseyjum og því er ekki útilokað að hún nemi land hérlendis með tíð og tíma.
Kranskönguló er eitraðri en gengur og gerist hjá köngulóm í okkar heimshluta en í eitri þeirra eru mörg sömu varasömu efnin og í eitri ekkjuköngulóa. Það er þó huggun harmi gegn að bit eru afar sjaldgæf enda halda köngulærnar sig við vefi sína og fara lítt á flakk nema röskun verði á.