Fjölskylduferð McCann fjölskyldunnar til Portúgal árið 2007 breyttist í martröð þegar hin þriggja ára gamla Madeleine hvarf sporlaust úr rúmi sínu á meðan foreldrar hennar voru að snæðingi.
Síðan þá hefur hverjum stein verið snúið við til að komast að því hvað varð um Madeleine og foreldrar hennar hafa aldrei gefist upp heldur gert sitt besta til að halda málinu lifandi.
Síðustu ár hefur komist smá hreyfing í rannsóknina, en dæmdur kynferðisbrotamaður, Christian Brueckner, er talinn hafa numið stúlkuna á brott og banað henni. Brueckner hefur þó ekki verið formlega ákærður enn sem komið er, en lögregla mun hafa hann í sigtinu.
Nú hefur þýskur saksóknari afhjúpað orðaskipti sem átti sér stað milli Brueckner og barnaníðings, en saksóknarinn, Hans Christian Wolters, telur að þar megi finna vísbendingu um Madeleine. Þar lýsir Brueckner draumi sínum um að nema litla stúlku á brott og skrásetja það. Hann hafi eins talað um að losa sig við sönnunargögn og barnaníðingurinn svaraði því með „mm“.
Wolters telur að þarna megi finna vísbendingu, mikilvæga vísbendingu sem gæti verið lykillinn að málinu. Mögulega hafi ónefndi barnaníðingurinn skrifað MM sem vísan í Madeleine McCann, þó erfitt sé að fullyrða það. Wolters tekur einnig fram að vafrasaga Brueckner sýni skýrt að hann hafi verið haldinn barnagirnd. Hann hafi rætt um að ræna og misnota barn á spjallsvæði í september árið 2013 þar sem hann sagðist ætla að framleiða fjölda myndskeiða ef honum tækist að handsama „eina litla“.
Sem stendur er Brueckner að afplána sjö ára fangelsisdóm fyrir að nauðga aldraðri konu í Portúgal. Hann hefur áður afplánað tveggja ára dóm fyrir blygðunarsemisbrot gegn barni sem og barnaníð.
Talið er líklegt að hann verði dreginn að nýju fyrir dóm snemma á næsta ári fyrir fjölda brota, svo sem nauðganir og kynferðisbrot gegn börnum. Tvær meintar nauðganir fóru fram á sama stað og Madeleine hvarf.