Flugvélar, sem ná hljóðhraða, eru ekki ný uppfinning. Flestar orustuþotur nútímans ná hljóðhraða en lítið hefur verið um að farþegaflugvélar nái svo miklum hraða.
Concord, sem var tekin í notkun 1976 og var í notkun til 2003, náði tvöföldum hljóðhraða, eða rúmlega 2.400 km/klst. Á velmektardögum Concord var hægt að komast frá Lundúnum til New York á aðeins 3,5 klukkustund. Í dag tekur þetta ferðalag um 7 klukkustundir.
Sovétmenn smíðuðu Tupolev Tu-144 flugvélina sem náði hljóðhraða. Á Vesturlöndum var hún kölluð „Concordski“ því talið var að Rússar hefðu þróað vélina á grunni tækniþekkingar sem þeir stálu frá Vesturlöndum.
Venus Aerospace, sem er ungt fyrirtæki í Texas, beinir sjónum sínum nú að því að þróa ofurhljóðfráa farþegaflugvél. Hún á að heita Stargazer og á að ná allt að níföldum hljóðhraða eða 11.000 km/klst. Engum hefur tekist að smíða flugvél sem nær svo miklum hraða.
Bandaríska X-15 tilraunaflugvélin, sem var smíðuð 1967, náði 6,7 földum hljóðhraða og er hraðskreiðasta flugvélin sem hefur verið smíðuð til þessa.
En Stargazer er ekki að fara að koma á markaðinn alveg á næstunni því löng og mikil þróunarvinna er fram undan.