Leslie Van Houten er gott dæmi um ungmenni sem fékk að gjalda rækilega fyrir það að enda í slæmum félagsskap. Hún brást illa við skilnaði foreldra sinna þegar hún var táningur, fór að fikta við fíkniefni og var almennt í uppreisn. Segir hún að 17 ár hafi hún orðið barnshafandi en móðir hennar hafi neitt hana til að gangast undir þungunarrof, en eftir það hafi samband þeirra aldrei náð sér á strik, en hún bar mikla reiði í garð foreldra sinna. Á þessum tíma var hippahreyfingin áberandi í heiminum og hreifst Leslia að þeim lífsstíl, fór að nema jóga og fluttist í kommúnu.
Hún eignaðist vinkonu í kommúnunni, en sú hafði heyrt um sértrúarsöfnuð Charles Manson og ákvað að ganga til liðs við hann. Leslie vildi ekki verða eftir og ákvað að fylgja vinkonu sinni eftir. Leslie hringdi í móður sína, sagði henni að hún væri að fara að hverfa og þær myndu aldrei talast við aftur.
Söfnuðurinn hjá Manson snerist mikið um heilaþvott og stjórnun. Manson einn fékk því ráðið hvenær fylgjendur hans borðuðu, sváfu og eins hvort þau stunduðu kynlíf og þá með hverjum. Hann sá um að deila út vímuefnum og gætti þess að láta fylgjendur sína ávallt taka inn stærri skammta af hugbreytandi efnum en hann gerði sjálfur. Leslie var á þessum tíma nánast stöðugt undir áhrifum sýru og í litlum tengslum við raunveruleikann. Á hverjum degi mátti hún hlýða á fyrirlestra frá Mason um hugmyndafræði hans, og tengsl við umheiminn voru engin.
Svo fór að Leslie endaði á heimili Rosemary og Leno LaBianca í ágúst árið 1969, ásamt Mason og fleirum úr söfnuðinum. Leslie ásamt annarri konu hélt Rosemary fastri á meðan annar safnaðarmeðlimur stakk hana með hníf. Síðan var Leslie réttur hnífur og hún stakk Rosemary sjálf 14 sinnum. Kvöldið áður höfðu aðrir safnaðarmeðlimir brotist inn til leikkonunnar Sharon Tate, sem var ólétt, og myrtu hana og vini hennar sem þar voru staddir. Alls létust 8 manns á þessum tveimur kvöldum. Leslie hafði þó ekki aðkomu að fyrra kvöldinu.
Manson útskýrði aldrei hvers vegna hann hafði fyrirskipað morðin, en hann neitaði sjálfur sök og bannaði þeim konum sem voru ákærðar í málinu að byggja vörn sína á því að hann hefði heilaþvegið þær og skipað þeim að fremja ódæðin. Leslie fylgdi því banni og losaði sig við þrjá verjendur sem vildu byggja vörn sína á því að Manson væri ábyrgur. Við réttarhöldin flissaði hún á meðan vitni gáfu skýrslu og virtist ekki taka málinu alvarlega. Hún greindi þó síðar frá því að hún hafi verið á sýru á þessum tíma.
Hún var sakfelld fyrir morð. Þegar kom að því að ákvarða refsingu ákvað hún að gera hvað sem hún gæti til að koma Manson undan sök í málinu. Hún sagðist hafa barið systur sína, Manson hefði engin áhrif haft yfir henni og hún hefði líklega framið morð þótt hún hefði aldrei hitt hann. Því fór svo að hún var dæmd til dauða, og varð þar með yngsta konan til að hljóta slíkan dóm í Kaliforníu. Engin dauðadeild var þó í boði fyrir konur svo að koma þurfti upp sérstakri aðstöðu bara fyrir hana. Refsingunni var seinna breytt í lífstíðarfangelsi. Mál hennar var svo í tvígang endurupptekið og í seinna skiptið var hún dæmd í lífstíðarfangelsi, með möguleika á reynslulausn.
Leslie hefur ítrekað frestað þess að fá reynslulausn, en til þessa verið neitað um slíkt með vísan til þess að samfélaginu stafi ógn af henni. Á meðan á afplánuninni stóð vann hún með ýmsum aðilum sem reyndu að aðstoða hana við að losna undan heilaþvotti Manson og tókst henni loks að hrista Manson af sér. Loksins gekk það í gegn að fá reynslulausn og var henni sleppt úr fangelsi í gær.
Margir hafa barist árum saman fyrir því að Leslie verði sleppt, enda þótti mörgum liggja í augum uppi að hún hafi verið áhrifagjarnt ungmenni sem leið illa og hún hafi því orðið fórnarlamb Manson sem hafi heilaþvegið hana með fíkniefnum og hugmyndafræðilegri innrætingu. Hún hafi aðeins verið 19 ára þegar morðin voru framin og hafi því varið nánast öllu sínum fullorðins árum á bak við lás og slá, en hún er í dag 73 ára.
Ekki eru þó allir á sama máli. Systir Sharon Tate, sem eins og áður segir var einn fyrsta fórnarlamb Manson fjölskyldunnar, segist hafa verulegar áhyggjur af því að Leslie myrði aftur.
Debra Tate sagði í samtali við TMZ að henni væri gróflega misboðið að refsivörslukerfið hefði brugðist samfélaginu og fallist á að leysa Leslie úr haldi. Þessari ákvörðun hefði átt að áfrýja og hafi ríkisstjórinn hreinlega gefist upp á slagnum, en sú uppgjöf sé löðrungur í andlit aðstandenda fórnarlamba Manson.
Hún segir að hún sjálf og aðrir aðstandendur séu dauðhræddir eftir að Leslie var sleppt. Því það sé möguleiki á að hún myrði aftur. Leslie hafi farið villu síns vegar, og villst svo langt af leiðinni að það sé ógjörningur að henni hafi tekist að snúa þaðan aftur. Sumir séu óforbætanlegir og brot Leslie beri það með sér að hún falli í þann hóp.